Upptaktur að nýjum sköpunarverkum

Mannlíf Menning og listir

""

Þekktir atvinnutónlistarmenn fluttu í gær verk eftir 18 ung tónskáld í Kaldalóni í Hörpunni en verkefnið er liður í samstarfi Barnamenningarhátíðar, Hörpu,  Listaháskóla Íslands og RÚV.  

Það má með sanni segja að Upptakturinn sé hvetjandi fyrir ung tónskáld sem fá að vinna með færustu hljóðfæraleikurum og söngvurum landsins við að útsetja verk sín og flytja fyrir áheyrendur. Á tónleikunum í Kaldalóni voru flutt tólf tónverk eftir átján ung tónskáld, sum hver unnin í smiðjum, eins og verkið Jealous of the way sem fimm nemendur í Dalskóla sömdu sameiginlega.  

Meðal flytjenda verkanna á tónleikunum í Kaldalóni voru Unnsteinn Manuel Stefánsson söngvari og Bryndís Jakobsdóttir söngkona og hljóðfæraleikarar voru úr sinfóníunni og nemendur í Listaháskólanum. Þá aðstoðuðu tónskáld og leiðbeinendur úr Listaháskólanum við útsetningar. 

Óhætt er að fullyrða að metnaður hafi verið lagður í útsetningar og flutning og augljóst að sköpunarverk barnanna höfðu öðlast nýja vídd fyrir bæði þau sjálf og aðstandendur þeirra eftir flutning listamannanna sem lögðu hug og hjarta í túlkunina.  

Öll verkin verða flutt í Ríkisútvarpinu á næstu vikum.