Uppskeruhátíð Snjallræðis

Atvinnumál Loftslagsmál

Frá afhendingu viðurkenninga

Uppskeruhátíð Snjallræðis var haldin í Grósku hugmyndahúsi á föstudag og sýndu þátttakendur í hraðlinum afrakstur vinnu sinnar undanfarna mánuði. 

Markmiðið með Snjallræði er að veita þeim einstaklingum sem brenna fyrir bættu samfélagi vettvang til að þróa eigin lausnir áfram og finna þeim sjálfbæran farveg. Hraðallinn hverfist um fjóra hönnunarspretti sem Svafa Grönfeldt og samstarfsfélagar hennar frá MIT leiddu í samstarfi við innlenda sérfræðinga á sviði samfélagslegrar nýsköpunar. Teymin fengu þjálfun og ráðgjöf yfir ríflega fjögurra mánaða tímabil, vinnuaðstöðu í Grósku hugmyndahúsi og aðgang að neti mentora sem leiðbeindu frumkvöðlunum, miðluðu af reynslu sinni og studdu teymin. 

Skapandi borg 

Hugmyndin að Snjallræði kviknaði hjá Höfða friðarsetri Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands. Hraðallinn byggir á samstarfssamningi sem borgarstjóri undirritaði fyrir hönd Reykjavíkurborgar við hátíðlega athöfn í Höfða þann 27. apríl 2018. Vaxtarrýmið er nú rekið sem samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri. Vaxtarrýmið er rekið í samstarfi við MITdesignX, og er þungamiðja þess vinnustofur þar sem sérfræðingar frá MIT koma til landsins og deila þekkingu sinni. Þátttakendur fá aðgang að fræðslu og þjálfun frá innlendum og erlendum sérfræðingum á sviði samfélagsmála og nýsköpunar og fundi með reyndum mentorum. Verkefnið er styrkt af Reykjavíkurborg, Vísindagörðum og Marel. 

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar  Reykjavíkur  veitti viðurkenningar við athöfnina í dag. „Snjallræði er hefur vaxið og þróast og er í dag einhver mest spennandi hraðall á Íslandi,“ segir Þórdís Lóa. „Þetta verkefni styður með ýmsum hætti við stefnu Reykjavíkurborgar um skapandi borg eins og hún birtist bæði í Græna plani borgarinnar og í atvinnu- og nýsköpunarstefnu okkar.”   

Fjölbreytt verkefni 

Það kenndi margra grasa í lokakynningum þátttakenda sem voru fluttar í dag í Grósku hugmyndahúsi:  

  • Bragðlaukaþjálfun: Bragðlaukaþjálfun miðast að því að draga úr matvendni barna með gagnreyndum aðferðum sem efla fjölskyldur og gefa þeim tækifæri til að eiga jákvæðar og styrkjandi samverustundir kringum mat og matmálstíma.  
  • Co-living Iceland: Co-Living Iceland is an AI driven matchmaking platform connecting individuals with their ideal house and housemates in Iceland. 
  • Eldrimenntun: leiðir saman eldri Íslendinga og innflytjendur á öllum aldri til að styðja við íslenskunám, draga úr félagslegri einangrun og auka gagnkvæman skilning á ólíkri menningu. 
  • Fine Food Íslandica: Sjálfbær þangræktun í samstarfi við sjávarútveginn. 
  • Jafningjahús: annar valkostur fyrir fólk í geðrænni krísu 
  • Opni leikskólinn: öruggur, ókeypis og bjóðandi staður þar sem foreldrar og börn geta leikið saman, kynnst öðrum og fengið fræðslu. 
  • Svepparíkið: þróar nýjar svepparæktunaraðferðir með einstöku 7 þrepa kerfi, sem byggja á nýtingu niðurbrjótanlegra hliðarstrauma frá fjölbreyttum iðnaði með sjálfbærni og hringrásarhagkerfið í huga til að takast á við áskoranir nútímans. 
  • Weave Together Foundation: is committed to fostering the integration and well-being of refugees and asylum seekers, enhancing their self-dependency and dignity, and expediting their employment through a specialized vocational training program during their waiting period.