Uppbyggingarverkefni yfir settum markmiðum

Loftmynd frá Gufunesi.
Loftmynd frá Gufunesi.

Húsnæðisáætlun, yfirlit fyrsta ársfjórðungs 2022, var kynnt á síðasta fundi borgarráðs, fimmtudaginn 30. júní sl.  Áætlunin sýnir stöðu uppbyggingarverkefna í borginni og þar kemur m.a. fram að búið er að samþykkja deiliskipulag fyrir 2.310 íbúðum sem er yfir settum markmiðum.

Í Græna planinu sem samþykkt var síðla árs 2020 settu borgaryfirvöld sér markmið um að byggja árlega 1.000 íbúðir í Reykjavík.

Á vordögum 2022 var þetta markmið hækkað í 2.000 íbúðir á ári. Gera má þó ráð fyrir að nokkur tími líði þar til uppbygging sjáist í fleiri tilbúnum íbúðum. Af þessum íbúðum er gert ráð fyrir að 20% sé á vegum húsnæðisfélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Þá skulu 5% uppbyggingar húsnæðis vera á vegum Félagsbústaða. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs komu 362 nýjar íbúðir inn á húsnæðismarkaðinn í Reykjavík og voru 175 þeirra eða 48,3% á vegum húsnæðisfélaga án hagnaðar.

Markmið borgarinnar er að byggja tvöfalt fleiri íbúðir en í fyrra eða um 2000. Á síðasta ári var lokið við að byggja 1.285 íbúðir í Reykjavík og var það umfram þáverandi markmið um þúsund íbúðir á ári. Ef horft er á íbúðafjölda, sem eru skráðar fullgerðar í Fasteignaskrá og teknar í notkun skv. byggingarfulltrúa voru þær 1.252  og er það einnig yfir markmiðum.

Húsnæðisáætlun Reykjavíkur – yfirlit 1. ársfjórðungs 2022