Uppbygging í þágu nýsköpunar

Atvinnumál

""

Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri alþjóðlega leikjaframleiðandans CCP, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Hilmar Bragi Janusson, stjórnarformaður Vísindagarða Háskóla Íslands, undirrituðu í dag samkomulag um að CCP flytji starfsemi sína á Íslandi í nýbyggingu sem rísa mun á svæði Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýri. Viðstaddir undirritunina voru Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Í nýbyggingunni verður einnig gert ráð fyrir rými fyrir önnur nýsköpunarfyrirtæki.

CCP, sem er með starfsstöðvar í fjórum löndum, hefur verið með skrifstofur við Grandagarð við Reykjavíkurhöfn. Markmið CCP er að efla starfsemi fyrirtækisins, en með staðsetningu skrifstofa fyrirtækisins í Vísindagörðum Háskóla Íslands munu skapast aukin tækifæri til samstarfs við háskólasamfélagið, stúdenta og fyrirtæki í fremstu röð. CCP hefur á undanförnum áratug stutt ötullega nýsköpun og menntun á Íslandi og vill með því gerast þátttakandi í Vísindagörðum og efla enn frekar þá þætti í starfsemi félagsins.

„Með þessum áformum er að hefjast nýr kafli í starfsemi CCP á Íslandi þar sem við sjáum fram á að efla enn frekar farsælt samstarf okkar við háskólasamfélagið og skapandi greinar hérlendis. Fram undan eru spennandi tímar hjá fyrirtækinu og ég er sannfærður um að miklir möguleikar eru fólgnir í þeirri samvinnu og uppbyggingaráformum sem fyrirhuguð er í Vísindagörðunum í Vatnsmýrinni á sviði tækniþróunar, rannsókna og nýsköpunar,“ segir Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP.

Nýjar skrifstofur CCP verða í nýbyggingu sem áætlað er að reisa við Sturlugötu 6. Í nýbyggingunni verður einnig gert ráð fyrir aðstöðu sem leigð verður út til annarra nýsköpunarfyrirtækja sem falla ekki síður en CCP að stefnu Háskóla Íslands um rannsóknir og nýsköpun og aukin tengsl við íslenskt atvinnulíf.

Auk samninga um byggingarframkvæmdir, lóðarleigu og byggingarrétt á lóðinni að Sturlugötu 6 er stefnt að víðtæku samstarfi CCP og Háskóla Íslands sem lúta mun að kennslu, rannsóknum og nýsköpun á því sviði sem CCP starfar á.

„Hér á lóð Vísindagarða er að skapast gríðaröflugur kjarni þekkingarfyrirtækja og við fögnum komu CCP og nýrra sprotafyrirtækja í þetta öfluga samfélag. Það hefur víða sýnt sig að nábýli skapandi fyrirtækja, vísindamanna og stúdenta leiði til aukins árangurs í verðmæta- og nýsköpun.  Hér verður til suðupottur þekkingar og segull fyrir nýsköpunarstarfsemi. CCP kemur hér inn í umhverfi þar sem fyrir eru Íslensk erfðagreining og lyfjafyrirtækið Alvogen auk glæsilegra stúdentagarða sem vígðir voru 2013.  Breiddin í starfsemi Háskóla Íslands, hin mikla fjölbreytni námsgreina og fagsviða, skapar ótal tækifæri til samvinnu um úrlausn verkefna þar sem þekking er sótt til fólks með ólíkan bakgrunn, og unnið er þvert á fræðigreinar.  Við fögnum sérstaklega að koma CCP hingað á lóðina skapar grundvöll til að hýsa í sömu byggingu ný sprotafyrirtæki,“ segir Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.

Samkvæmt samkomulagi Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar hefur borgin skuldbundið sig til þess að úthluta Háskóla Íslands lóðinni að Sturlugötu 6 og hefur Háskóli Íslands falið Vísindagörðum umsjón með uppbyggingu á lóðinni.

„Staðarval CCP og frekari uppbygging Vísindagarða Háskóla Íslands er sérstakt fagnaðarefni. CCP hefur verið eitt af leiðandi þekkingarfyrirtækjum landsins og mikil sóknarfæri sem fylgja því að það sé í návígi við háskólastarfsemi, stúdenta og kennara. Ég er mjög stoltur af því að þetta sé að verða að veruleika og tel að það sé til marks um framsýni og metnað forsvarsmanna fyrirtækisins,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og bætir við. „Það skref sem stigið er í dag er einnig ávöxtur af nánu samstarfi borgarinnar og háskólanna, sem ásamt Landspítalanum hafa sammælst um að gera Vatnsmýrina að framúrskarandi valkosti fyrir fyrirtæki og fjölskyldur. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að þekkingartengd starfsemi er lykilatriði í atvinnustefnu borgarinnar og kraftmikil uppbygging vísindaþorps er sannarlega kjarninn í því að hún nái fram að ganga.“ 

Nánar um CCP

Tölvuleikjaframleiðandinn CCP framleiðir og gefur út fjölspilunar-tölvuleikina EVE Online og DUST 514 auk þess að vera með leikinn EVE: Valkyrie í þróun. Fyrirtækið var stofnað í Reykjavík árið 1997 og hjá því starfa rúmlega 330 manns á skrifstofum þess í Reykjavík, Shanghai, Atlanta og Newcastle. Þar af rúmlega 200 manns hérlendis.

Nánar um Vísindagarða Háskóla Íslands

Vísindagarðar Háskóla Íslands er félag sem er að stærstum  hluta í eigu háskólans en einnig Reykjavíkurborgar og hefur að markmiði að efla samstarf fyrirtækja, rannsóknastofnana, háskóla og stjórnvalda um nýsköpun og skapa aðstöðu fyrir frumkvöðla. Fyrirmyndin að vísindagörðum er sótt til Evrópu og Bandaríkjanna þar sem uppbygging slíkra garða hefur verið hröð. Markmið slíkra garða er að skapa öflugt nýsköpunar- og viðskiptaumhverfi sem skapar fyrirtækjum og viðkomandi háskólum samlegðaráhrif, báðum til hagsbóta, og búa til verðmæt störf í þekkingarstarfsemi.