Unnið áfram að endurheimt votlendis í Úlfarsárdal

Umhverfi

""

Haldið verður áfram að vinna að endurheimt votlendis í Úlfarsárdal. Borgarráð heimilaði í gær umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út 2. áfanga framkvæmdarinnar en áætlaður kostnaður er 30 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í þessum mánuði og þeim ljúki áður en varptími fugla hefst á næsta ári.

Verkefnið hefur fjölþætt gildi, bæði sem náttúruverndaraðgerð og aðgerð til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er meginstefna fyrir skipulag svæðisins að endurheimta stóran hluta votlendis með lokun framræsluskurða samhliða öðrum umhverfisbótum. Verkefnið styður við stefnu Reykjavíkurborgar um að tryggja líffræðilega fjölbreytni og markmiðum loftslagsstefnu um kolefnisbindingu.

Hvað verður gert?

  • Fyllt verður í framræsluskurði með jarðefni og gróðurþekju af svæðinu.
  • Útrennsli skurða af svæðinu verða grynnkuð.
  • Á nokkrum stöðum verður skafið ofan af landi á skurðarmótum og litlar tjarnir mótaðar.
  • Votlendissvæðið skal að öðru leyti óraskað.

Reynt verður eins og kostur er að halda til haga gróðri með votlendistegundum til að styðja við þróun í blautara gróðurfar. Svæðið er viðkvæmt og mikilvægt að huga að vernd lífríkis á svæðinu. Sérstakar mengunarvarnir verða viðhafðar við framkvæmd verksins.