Ungmenni funda með borgarstjórn

Skóli og frístund

""

Reykjavíkurráð ungmenna fundar með borgarstjórn á opnum fundi í borgarstjórnarsal Ráðhússins á morgun, þriðjudaginn 26. mars. Það verður beint streymi frá fundinum sem hefst klukkan þrjú og öll einnig velkomin að fylgjast með frá áhorfendapöllum.

Reykjavíkurráð ungmenna kemur með tillögur um málefni sem á þeim brenna og segja frá því sem betur má fara í borginni.

Fundur Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarstjórnar er orðinn að árvissum viðburði og er þessi fundur sá átjándi í röðinni. Að þessu sinni liggja átta tillögur fyrir fundinum og snúa þær m.a. að því að gerð verði úttekt á umhverfi og staðsetningu á grenndarstöðvum í Reykjavík, samráð við börn og ungmenni verði tryggð í öllum málefnum sem varðar þau, aukna viðveru hjúkrunarfræðinga á skólatíma og táknmálskennslu í grunnskólum.

Fulltrúar í Reykjavíkurráði ungmenna hafa haft í nógu að snúast í vetur. Ráðið hittist vikulega og skipulagði að auki starfsdag fyrir unglinga í öllum ungmennaráðum Reykjavíkur. Þá flutti fulltrúi ráðsins erindi á opnum fundi skóla- og frístundaráðs um nýja menntastefnu Reykjavíkurborgar, ráðið fundaði með fulltrúa Strætó bs. og sótti um styrk til að halda ráðstefnu um starf ungmennaráða næsta haust. Ráðið á einnig fulltrúa í skóla- og frístundaráði, í stjórn Barnamenningarhátíðar og í stjórn 17. júní hátíðarhaldanna í Reykjavík.

Markmið með starfsemi Reykjavíkurráðs ungmenna er m.a. að skapa vettvang og leiðir til þess að gera þeim sem eru yngri en 18 ára kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri og þjálfast í lýðræðislegum vinnubrögðum. Í starfi sínu í vetur og síðastliðin ár hefur Reykjavíkurráðið fjallað um málefni ungs fólks og tekið þátt í ýmsum verkefnum sem fulltrúar ungs fólks í Reykjavík. Reykjavíkurráð ungmenna er jafnframt samráðsvettvangur allra ungmennaráða sem starfa í borginni.

Yfirlit yfir tillögur Reykjavíkurráðs ungmenna sem lagðar verða fyrir borgarstjórn.