Unglingar læra um umhverfisvænan lífsstíl

Umhverfi

""

Af 111 starfsmönnum Vinnuskóla Reykjavíkur eru fimm sem starfa sem grænir fræðsluleiðbeinendur. Ísak Henningsson og Stefanía Stefánsdóttir eru tveir þeirra. Þátttaka í Vinnuskólanum er góð í sumar eins og síðasta sumar en alls eru tæplega 3600 unglingar skráðir í skólann úr 8., 9. og 10. bekk.

Grænu fræðsluleiðbeinendurnir heimsækja alla 8. bekkingana og marga úr 9. bekk einu sinni yfir sumarið. Vinnuskóli Reykjavíkur hefur fengið grænfánann á hverju ári síðustu ár og er fræðsla grænu leiðbeinendanna liður í því.

Hvað gera grænir fræðsluleiðbeinendur?

„Við förum í hópa í Vinnuskólann og ræðum við krakkana um umhverfismál. Við erum um þrjá tíma með hvern hóp. Við viljum líka heyra hvað þau hafa að segja og fá að vita hvað þau vita um umhverfismál. Þau vita mörg mikið nú þegar,“ segir Stefanía sem hefur gaman af því að ræða við unglingana.

Ísak og Stefanía hafa bæði mikinn áhuga á umhverfismálum og hafa látið til sín taka þar. Bakgrunnur þeirra beggja er úr skapandi greinum en Ísak er að læra söng og Stefanía kvikmyndafræði. Þessi skapandi bakgrunnur hentar vel til að undirbúa skapandi fræðslu þar sem lögð er áhersla á að læra í gegnum leik.

Kennslan er því ekki í hefðbundnu fyrirlestraformi heldur er boðið upp á samtal og leik. „Ég reyni að hafa sem mest af leikjum og skapa umræður út frá þeim,“ segir hún en spurningaleikir eru sérlega vinsælir.

Ísak segir að þau vekji hópinn til umhugsunar með ýmsum spurningum eins og „Hvað er það fyrsta sem þér dettur í hug þegar þú hugsar um umhverfismál? Hvað getum við gert til þess að sporna við loftslagsbreytingum?“

„Ég reyni að tala um hvernig umhverfismál hafa áhrif á Ísland og okkar nærumhverfi. Ég reyni að valdaefla þau og hvetja þau til að gera það sem þau geta sem einstaklingar,“ segir Stefanía.

Flokka, sleppa einnota nestisumbúðum og nota vistvænar samgöngur

Og hvað geta þau helst gert?

„Til dæmis að flokka og tína rusl,“ segir hún og bendir á að það sé eitt af verkefnum nemendanna í Vinnuskólanum. „Við hverjum þau til að koma með nesti í fjölnota umbúðum og nota vistvænar samgöngur, sem þau gera flest. Við segjum þeim að þau geti líka verið leiðtogar og fyrirmyndir fyrir aðra,“ segir Stefanía og útskýrir að það að vera í Vinnuskólanum og mæta í fræðslu þar sé líka liður í því að leggja sitt af mörkum.

Er eitthvað sérstakt varðandi umhverfismál sem þau hafa áhuga á?

„Þau eru svolítið upptekin af plasti og tala mikið um rafmagnsbíla,“ segir hún.

Ísak segir að þau reyni að skora á hópana að taka umhverfisáskorun, að setja sér markmið sem hópur og ræða við leiðbeinanda um að vera með verðlaun ef þau ná markmiðinu.

Dæmi um markmið er þessi þrenna sem áður var minnst á, vistvænar samgöngur, koma með nesti í fjölnota íláti og flokka rusl.

Skiptimarkaður á hverfahátíð

Vinnuskólanum er skipt niður á þrjú starfstímabil og er fyrsta þeirra nýlokið. Borgin skiptist í sex hverfi og er jafnan haldin hátíð í lok hvers vinnutímabils í hverju hverfi fyrir sig. Í þetta sinn ákváðu grænu fræðsluleiðbeinendurnir standa fyrir skiptimarkaði. Þar var hægt að koma með föt, bækur, plöntur og spil sem eru hætt í notkun á heimilinu og skipta út fyrir annan velmeðfarinn varning. Í fræðslunni hefur verið lögð megin áherslu á valdeflingu og að kynna nemendurna fyrir heppilegum leiðum í átt að umhverfisvænni lífstíl. Með skiptimarkaðnum var takmarkið að sýna þessa viðleitni í verki og aldrei að vita nema að markaðurinn festi sig í sessi sem hluti af hverfahátíðinni þar sem var auðvitað líka farið í leiki og grillað.

Umhverfisráð og smiðjur

Annað af því sem gert er á sumrin er að fræða í gegnum svokallað umhverfisráð. Þar fá sérlega áhugasamir nemendur að taka einn vinnudag í að fræðast um umhverfismál með því að taka þátt í ýmsum smiðjum. Þar hefur til dæmis verið hægt að taka þátt í skiltagerð, læra um falsfréttir og grænþvott og velta fyrir sér hvernig hægt er að nota samfélagsmiðla til að vekja athygli á umhverfismálum auk þess að vera með í spunasmiðju og leiklistarsmiðju.

Stefanía segir að mörgum finnist þau vera að gera það sem þau geti en finnist samt eins og þau séu ekki að gera nóg. Þá leggur hún áherslu á að þau séu að gera það besta sem þau geta gert.  „Ég segi alltaf við þau: Margt smátt gerir eitt stórt.“