Umhverfi fyrir börn sem byggir á virðingu, jafnrétti og þátttöku

Skóli og frístund

Undirskrift um Réttindaskóla- og frístund

Fjórir grunnskólar, þrjú frístundaheimili og tvær félagsmiðstöðvar í Fossvogs- og Bústaðahverfi hafa bæst í hóp þeirra sem taka þátt í Réttindaskóla og Réttindafrístund verkefnis UNICEF. Samkomulag hefur verið undirritað og mun gilda næstu þrjú árin. Réttindaskólar og -frístund er verkefni fyrir skóla- og frístundastarf sem tekur mið af Barnasáttmálanum og miðar að því að auka virðingu, vernd og innleiðingu mannréttinda.

Markmið að byggja upp lýðræðislegt umhverfi

Með því að taka þátt í verkefninu leggja grunnskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar Barnasáttmálann til grundvallar í öllu sínu starfi, svo sem skipulagningu, stefnumótun og starfsháttum. Áhersla er lögð á að skapa umhverfi sem byggir á þátttöku, jafnrétti og virðingu. Með Réttindaskóla og -frístund er markmiðið að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi.

Stjórnendur sem skrifuðu undir í þessari lotu voru þar fyrir Hvassaleitisskóla, Réttarholtsskóla, Breiðagerðisskóla, Fossvogsskóla,  frístundaheimilin Neðstaland, Sólbúa og Krakkakot sem og félagsmiðstöðvarnar Tónabæ og Bústaði.

Á Rásinni, hljóðvarpi skóla- og frístundasviðs, geta áhugasamir kynnt sér Réttindafrístund betur.