Umferð gangandi og hjólandi aðskilin frá hestaumferð við Rauðavatn

Samgöngur Umhverfi

""

Framkvæmdir hefjast innan skamms við nýjan göngu- og hjólastíg, ásamt færslu reiðstígs, sunnan og austan við Rauðavatn. Tilgangurinn er að aðskilja umferð gangandi og hjólandi frá ríðandi umferð á þessu vinsæla útivistarsvæði. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í lok nóvember og þeim ljúki næsta vor. Lægstbjóðandi í verkið var Jarðval sf. en tilboðið hljóðaði upp á 66 milljónir króna.

Myndatexti: Reiðstígurinn er merktur með rauðu og er fjær vatninu en göngu- og hjólastígurinn.

Göngu- og hjólastígurinn verður þriggja metra breiður og malbikaður en reiðstígurinn verður fjögurra metra breiður með malarslitlagi. Stígarnir verða upplýstir með snjalllýsingarbúnaði m.t.t. orkusparnaðar og öryggis. Það þýðir m.a. að hægt verður að dimma lýsinguna á nóttunni til að forðast ljósmengun í náttúrunni. 

Enn fremur verður gert nýtt hestagerði í stað þess sem nú er á svæðinu.

Verkið er hluti af áætlun um að flýta fjárfestingarverkefnum Reykjavíkurborgar með það að markmiði að veita viðspyrnu við atvinnuleysi af völdum COVID-19.