Tunnuskipti vegna samræmds flokkunarkerfis hefjast í vor

Sorphirða

Engar breytingar á tunnum verða við heimili núna um áramótin vegna innleiðingar á samræmdu sorphirðukerfi. Mynd/Róbert Reynisson
Sorphirðubíll og starfsmaður sorphirðu

Á vormánuðum 2023 verður innleitt nýtt samræmt flokkunarkerfi á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjórum úrgangsflokkum verður safnað við hvert heimili.  Þrátt fyrir að lög um hringrásarhagkerfi taki gildi um áramót hefjast tunnuskiptin ekki fyrr en í vor og verða því engar breytingar við heimili núna um áramótin.

Meginmarkmið er að fjölga tunnum hjá íbúum eins lítið og hægt er og í flestum tilfellum verður leitast við að koma tunnum fyrir í því rými sem er þegar til staðar við heimili.  Breytingar á tunnum íbúa, ef einhverjar verða, hefjast í fyrsta lagi í vor. Íbúar í Reykjavík þurfa ekki að gera neinar ráðstafanir þegar tunnuskiptin koma til framkvæmda.

Með lögum um hringrásarhagkerfi, sem taka gildi um áramótin, verður skylt að flokka heimilisúrgang í fjóra flokka við heimili: pappír, plastumbúðir, lífrænan úrgang (matarleifar) og blandaðan úrgang.  Þetta verður stórt framfaraskref í umhverfis- og loftslagsmálum en meðal annars munu öll heimili fá tunnu fyrir matarleifar.