Tugir nýrra starfsmanna í skóla- og frístundastarfinu | Reykjavíkurborg

Tugir nýrra starfsmanna í skóla- og frístundastarfinu

miðvikudagur, 11. október 2017

Nýir starfsmenn eru ráðnir á hverjum degi í leikskóla og frístundaheimili borgarinnar. 

  • Frístundastarf í Gufunesbæ
    Börn í frístundastarfi í Gufunesbæ

Frá því í lok ágúst hefur verið ráðið í 21 stöðugildi í leikskólum borgarinnar, 14 í grunnskólunum og 78 í frístundastarfinu. Enn á eftir að ráða í 79 stöðugildi í leikskólum og 47 stöðugildi í frístundaheimilum/sértækum félagsmiðstöðvum. Verið er að ráða starfsfólk alla daga þannig að ráðningartölur breytast dag frá degi.

Í leikskóla borgarinnar vantar 2 deildarstjóra, 46 leikskólakennara, 18 stuðningsfulltrúa og 13 aðra starfsmenn.  27 leikskólar af 64 eru fullmannaðir, í 25 leikskólum á eftir að ráða 1-3 starfsmenn, 7 leikskóla vantar 3-4 starfsmenn og 4 leikskólar eiga eftir að ráða 5 starfsmenn, eða 6% leikskóla borgarinnar.

Manneklan í leikskólunum hefur valdið því að um 60 börn sem höfðu fengið boð um vistun í leikskóla eftir sumarleyfi bíða þess að hefja þar leikskóladvöl, en rúmlega helmingur þeirra er í vistun hjá dagforeldrum eða í öðrum leikskóla.  

Frá því í septemberlok hafa 16 starfsmenn verið ráðnir til starfa hjá fimm frístundamiðstöðvum borgarinnar. Í frístundaheimili/sértækar félagsmiðstöðvar vantar enn 95 starfsmenn í 50% störf. Þar af vantar 11 starfsmenn í störf með fötluðum börnum og ungmennum. Fjórðungur frístundaheimila í borginni er nú fullmannaður en í 28 þeirra vantar starfsfólk í allt að þrjár stöður.

9. október 2017 hafði verið sótt um dvöl á frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum fyrir 4.415 börn. Af þeim eru 4.116 komin með vistun og njóta börn með sérþarfir og yngstu börnin forgangs, önnur eru tekin inn í samræmi við umsóknartíma. 

Í lok september í fyrra var staðan í ráðningarmálum frístundaheimila svipuð og nú, þá átti eftir að ráða fólk í 51 stöðugildi. Þá vantaði starfsmenn í rúm 50 stöðugildi í leikskólunum miðað við 79 stöðugildi nú.