Tré ársins 2021 er heggur við Rauðavatn

Umhverfi Íþróttir og útivist

""

Skógræktarfélag Íslands hefur valið hegg uppi við Rauðavatn tré ársins í samstarfi við Lambhaga. Þetta var tilkynnt við hátíðlega athöfn í dag

Athöfnin fór fram í fyrstu gróðrarstöðinni í Reykjavík sem stofnendur Skógræktarfélags Reykjavíkur komu upp á landspildu við Rauðavatn. 

Jónatan Garðarsson formaður Skógræktarfélags Íslands afhenti Degi B. Eggertssyni borgarstjóra viðurkenningarskjal vegna tilnefningarinnar og Jóhannes Benediktsson formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur hélt ávarp en félagi fagnar 120 ára afmæli í dag.

Heggurinn við Rauðavatn er merkistré því hann hefur vaxið upp í gróðurreit sem markar upphaf trjáræktar í Reykjavík en Skógræktarfélag Íslands hóf einmitt starfsemi sína við Rauðavatn fyrir 120 árum. Þá var svæðið við Rauðavatn talið ákjósanlegt fyrir lystigarð framtíðarinnar því stutt var að fara frá höfuðborginni og fallegt útsýni yfir Rauðhóla.

Úr þessum gróðurreit komu mörg af fyrstu trjánum sem Reykvíkingar gróðursettu í görðum sínum en borgin er nú orðinn einn af gróðursælli stöðum landsins. 

Að stofnun Skógræktarfélags Reykjavíkur stóðu ýmsir þekktir bæjarbúar þess tíma, til að mynda Knud Zimsen, verkfræðingur og síðar borgarstjóri, Þórhallur Bjarnason, alþingismaður og síðar biskup, og Steingrímur Thorsteinsson skáld, sem varð fyrsti formaður félagsins. Danski skógfræðingurinn Christian Flensborg vann einnig mikið stórvirki við skógrækt í Reykjavík, en hann kom upp sérstökum græðireit við Rauðavatn, þar sem tré voru ræktuð upp frá fræjum og því aðlöguð íslenskum aðstæðum frá fyrstu rótarskotum.

Horfinn í þéttan sitkagrenilund

Tré ársins er einmitt þessi fallegi heggur (Prunus Padus), sem er að öllum líkindum afkomandi heggs sem var gróðursettur á fyrstu árum skógræktar við Rauðavatn. Mögulegt er að heggurinn eigi sameiginlegan forföður með mörgum eldri heggviði í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum skógræktarfólks er lífaldur heggs nefnilega ekki nema um 60 ár. Núverandi tré hefur því vaxið upp sem rótarskot frá hinum upprunalega hegg sem vitað er að gróðursettur var hér í reitnum fyrir 120 árum. 

Heggurinn var alveg horfinn inn í þéttan sitkagrenilund á reitnum við Rauðavatn, en fannst eftir nokkra rannsóknarvinnu. Sigurður G. Tómasson, útvarpsmaður og fyrrum framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur fann forföður heggsins á gróðurreitnum fyrir um fimmtíu árum og vissi nokkurn veginn hvar hann gæti verið að finna en Auður Kjartansdóttir núverandi framkvæmdastjóri Skógræktarfélagsins fór á stúfana í vetur og leitaði hegginn uppi samkvæmt leiðarlýsingu Sigurðar. Heggurinn var hæðarmældur og reyndist vera átta metrar. Nú hafa nokkur stór grenitré sem skyggðu á þetta merkilega tré verið felld þannig að betur mun fara um það. Heggur skartar fallegum hvítum blómum í júní.

Full ástæða til að hylla frumkvöðla í skógræktarstarfi

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í ávarpi sínu við þetta tilefni að full ástæða væri til að hylla þá frumkvöðla sem hófu skógræktarstarf í Reykjavík. Hann sagði að lífsstarf þessara frumkvöðla væri einkar mikilvægt nú þar sem það gegni miklu hlutverki við kolefnisjöfnun. Skógurinn í Heiðmörk geri til að mynda meira til að kolefnisjafna bílaflota höfuðborgarbúa en flest önnur úrræði til að draga úr mengun. Borgarstjóri minntist í þessu samhengi á nýtt samstarf Reykjavíkurborgar og Skógræktarfélags Reykjavíkur við Loftslagsskóga. Í því verkefni fá fyrirtæki, stofnanir og almenningur tækifæri til að gróðursetja tré til kolefnisjöfnunar.  

„Einkum verður gróðursett í Esjuhlíðum og á Geldinganesi og munu skógarnir þar binda kolefni, auka skjól og stuðla þannig að bættri lýðheilsu okkar allra – fyrir utan að leggja drög að nýjum unaðsreit með öllum þeim töfrum sem fylgja skóglendi við borgarjaðarinn, rétt eins og reiturinn hér við Rauðavatn hefur gert í 120 ár,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og þakkaði í kjölfarið Skógræktarfélagi Íslands fyrir þann heiður að útnefna hegginn við Rauðavatn Tré ársins 2021 og Skógræktarfélagi Reykjavíkur með 120 ára afmælið.

Í tilefni af afmælinu hefur verið útbúið söguskilti um Rauðavatnsstöðina og upphaf skógræktar í Reykjavík sem stendur fyrir framan hegginn.