Torgið - stafrænt fræðslukerfi fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar

Atvinnumál

Teiknuð mynd af torgi með básum þar sem hlutverk torgsins koma fram

Búið er að festa kaup á nýju fræðslukerfi fyrir starfsfólk borgarinnar sem hlotið hefur nafnið Torgið. Torg er opið svæði þar sem allt starfsfólk borgarinnar er velkomið.

Það lokar aldrei og iðar af lífi. Þangað getur starfsfólk sótt það efni sem það vantar og fundið aðra og nýja spennandi hluti. Að torga þýðir líka að taka inn, sem er skemmtileg tenging við eiginnafn fræðslukerfisins.

Torgið mun halda utan um fræðslu og þjálfun starfsfólks, þar á meðal skyldufræðslu, nýliðaþjálfun, stjórnendaþjálfun og alla aðra fræðslu sem stendur starfsfólki til boða. Í kerfinu getur starfsfólk sótt stafræna fræðslu, til dæmis á formi myndbanda eða texta, eða skráð sig á rauntímafræðslu hvort sem er fjarnámskeið eða staðnámskeið. Torgið mun stórbæta aðgengi að fræðslu sem og eftirfylgni og yfirsýn stjórnenda. Reykjavíkurborg er stærsti vinnustaður landsins en hefur hingað til ekki haft aðgang að fræðslukerfi af þessu tagi. Torgið verður því mikið framfaraskref.

Liður í stafrænni vegferð borgarinnar

Verkefnið er eitt af fjárfestingarverkefnum í stafrænni vegferð borgarinnar og því hluti af Græna planinu. Verkefninu er stýrt af þjónustu- og nýsköpunarsviði í samvinnu við mannauðs- og starfsumhverfissvið.

Reykjavíkurborg samdi við fyrirtækið eloomi a/s um kaup á fræðslukerfinu, í kjölfar samkeppnisútboðs á evrópska efnahagssvæðinu. Að baki samningsins liggur mikil vinna sem hófst haustið 2020. Greiningarvinna var unnin í samstarfi við flest öll svið borgarinnar undir leiðsögn þjónustu- og nýsköpunarsviðs og mannauðs- og starfsumhverfissviðs. Útboðsferlið var unnið í nánu samstarfi við innkaupskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Samhliða innleiðingu Torgsins stendur yfir mótun fræðslustefnu fyrir vinnustaðinn Reykjavíkurborg á vegum mannauðs- og starfsumhverfissviðs. Opnun Torgsins verður vandlega kynnt þegar að því kemur.