Töluvert dró úr bílaumferð á bíllausa deginum

Samgöngur

Bíllausi dagurinn

Töluvert dró úr bílaumferð í Reykjavík á bíllausa deginum 22. september miðað við föstudagana á undan. Þetta sýna gögn úr umferðarmælingum. Greinilegt er að hvatningin á bíllausa deginum hefur skilað sér til bílstjóra. Umferðarmælingar á bílum á markverðum stöðum sýna glögglega að það dró úr umferð, mest um 16% suður Suðurlandsveg.

Suðurlandsvegur við Krókháls

Bíllausa daginn, föstudaginn 22. september, keyrðu 11.964 bifreiðar norður Suðurlandsveg við Krókháls og 12.036 suður. Föstudaginn 15. september keyrðu 12.555 norður þennan veg og 12.785 suður sem er 7% meira en á bíllausa daginn. Nefna má að 8. september keyrðu 16% fleiri bílar í suðurátt á þessum vegi.

Breiðholtsbraut – Stekkjarbakki

Á bíllausa daginn óku 20.467 vestur Breiðholtsbraut – Stekkjarbakka og 16.962 austur en 15. september fór 21.670 þessa leið vestur en 17.591 austur. Þar dró 4-6% úr umferð á bíllausa daginn.

Miklubraut við Kringlumýrarbraut

Einnig dró töluvert úr umferð á Miklubraut við Kringlumýrarbraut á bíllausa daginn. Vestur fóru 23.188 bifreiðar þann 22. september en 15. september óku þar 25.427 bílar eða 10% fleiri.

Bíllausi dagurinn er árlegur og hluti af evrópskri samgönguviku. Sveitarfélög hvetja ökumenn til að hvíla bílinn, Strætó bs bíður frítt í vagna og fleiri hvetja fólk til að prófa aðra samgöngumáta.

Áhugasamir geta skoðað þessa talningastaði hér í Borgarvefsjá.