Tólf staðir fá styrk úr Úrbótasjóði tónleikastaða í Reykjavík

Menning og listir Mannlíf

""

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur samþykkti á ráðsfundi í dag tillögu þess efnis að tólf tónleikastaðir og menningarhús er sinna lifandi tónlistarflutningi hljóti styrk úr Úrbótasjóði tónleikastaða í Reykjavík.

Hæsti styrkurinn fer til hins rótgróna tónleikastaðar Gauksins til að koma upp utanáliggjandi hjólastólalyftu á húsnæði staðarins.

Tónlistarþróunarmiðstöðin (TÞM) úti á Granda fær tæpar 1,5 milljónir til að standsetja tónleikastaðinn Hellinn sem leggur áherslu á tónleika hljómsveita sem æfa í TÞM og yngri hljómsveita.

Gamla bíó fær 1,3 milljónir til kaupa á miðlægu hljóðstjórnarkerfi og Mengi 1 milljón til að fjárfesta í hljóðkerfi.

R6013 sem rekinn er í kjallara húss á Ingólfsstræti og sem þekktur er sem heimili grasrótarinnar í Reykjavík, fær 500 þúsund krónur til kaupa á ljósabúnaði, reykvél o.fl. til að bæta sjónræna hlið tónleikahaldsins.

Stelpur rokka! sem reka áfengislausan stað með áherslu á tónleikahald fyrir ungmenni fá 420 þúsund króna styrk til að koma upp hjólastólarampi við inngang staðarins og upp á svið.

Húrra sem opnar aftur sem tónleikastaður í sumar fær 400 þúsund krónur fyrir hljóðkerfi. Prikið fær síðan 260 þúsund krónur til að endurbæta og stækka sviðið innandyra. 

Athygli vekur að fjórir nýir staðir fá jafnframt styrk úr úrbótasjóðnum. Skuggabaldur er nýr djassstaður sem opnar í sumar og fær hann 635 þúsund krónur  til að kaupa hljóðkerfi. Tilraunavettvangurinn Space Odyssey sem opnaði í mars á þessu ári fær 350 þúsund krónur til að fjárfesta í hljóðkerfi og upptöku- og streymisbúnaði. Post-húsið á Skeljanesi, tónleikastaður í umsjá listakollektívsins Post-dreifingar, fær 250 þúsund krónur til að kaupa tæknibúnað og að lokum fær Stereo sem opnar í júlí og leggur áherslu á raftónlistarsenuna, 220 þúsund króna styrk til að hljóðdempunar. 

Umsóknarfrestur var til 31. maí sl. en alls bárust 14 umsóknir í sjóðinn frá 13 tónleikastöðum og menningarhúsum. Heildarupphæð sem sótt var um nam tæpum 18 milljónum króna. Faghópur skipaður einum fulltrúa sem Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð skipaði og tveimur fulltrúum sem STEF og FÍH skipuðu saman fór yfir umsóknirnar og lagði tillögur um úthlutun fyrir Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð sem var samþykkt.

Úrbótasjóður tónleikastaða í Reykjavík var settur á laggirnar árið 2019 sem átaksverkefni til tveggja ára. Nú hefur verið úthlutað úr sjóðnum tvisvar sinnum en ekki hefur verið tekin formleg ákvörðun um framtíð verkefnisins. Styrkirnir sem nú eru veittir koma til greiðslu á þessu ári og gert er ráð fyrir að styrkhafar komi með mótframlag sem jafngildi fjórðungs hluta heildarkostnaðar en jafnframt er stöðunum heimilt að telja eigið vinnuframlag fram til kostnaðar. Í lok ársins er öllum styrkhöfum gert að skila greinargerð um ráðstöfun styrkfjárins. Tónlistarborgin Reykjavík óskar styrkhöfum til hamingju og óskar þeim velfarnaðar á komandi mánuðum nú þegar farið er að birta á ný eftir heimsfaraldur og tónlistin er tekin að hljóma aftur á þeim vettvangi sem hún á best heima.

Úrbótasjóður tónleikastaða er runninn undan rifjum Tónlistarborgarinnar í Reykjavík. Reykjavíkurborg leggur sjóðnum til 8 milljónir sem koma úr þeim potti sem árlega er eyrnamerktur menningarstyrkjum. Höfundarréttasamtökin STEF leggja 500 þúsund krónur í sjóðinn og Félag íslenskra hljómlistarmanna leggur sjóðnum til 300 þúsund krónur.  Hlutverk sjóðsins er að styðja við tilvist minni og miðlungs stórra tónleikastaða í Reykjavík með því að veita styrki til úrbóta á tónleikastöðunum hvað varðar aðstöðu, aðbúnað og aðgengi. Þannig er stuðlað að áframhaldandi aðstöðu fyrir lifandi tónlistarflutning í borginni sem styður um leið við tónlistarlífið allt og eflir mannlífið.