Tíu áramótabrennur í Reykjavík

Umhverfi Íþróttir og útivist

""
Áramótabrennur í Reykjavík verða á sömu stöðum og með sama sniði og undanfarin ár.  Byrjað er að safna í kestina. 
 
Eldur verður borinn að köstunum kl. 20.30 á gamlárskvöld á öllum stöðum nema tveimur.  Á Úlfarsfelli verður tendrað kl. 15.00 um daginn og í Skerjafirði verður eldur borinn að kestinum kl. 21.00 eftir blysför sem hefst kl. 20.30.  
Gestir eru beðnir um að virða þá reglu að vera ekki með skotelda við brennurnar þar sem mannfjöldi er. Stjörnuljós og blys eru betri kostur enda barnvænt og hættuminna.

Áramótabrennurnar verða á eftirtöldum stöðum:

  • Við Ægisíðu, stór brenna.
  • Skerjafjörður gegnt Skildinganesi 48 - 52,  lítil brenna (tendrað kl. 21.00, eftir blysför sem hefst kl. 20.30).
  • Við Suðurhlíðar, neðan við Fossvogskirkjugarð, lítil brenna.
  • Vestan Laugarásvegar móts við Valbjarnarvöll,  lítil brenna.
  • Geirsnef, stór brenna.
  • Við Suðurfell, lítil brenna.
  • Fylkisbrennan við Rauðavatn, stór brenna.
  • Gufunes við gömlu öskuhaugana, stór brenna.
  • Kléberg á Kjalarnesi, lítil brenna.
  • Úlfarsfell á athafnasvæði Fisfélagsins ofan við Lambhagaveg, lítil brenna (tendrað kl. 15.00)

Stærð brennanna ræðst af mati Eldvarnareftirlitsins á aðstæðum á hverjum stað.

Best að fá hreint timbur á brennurnar

Byrjað er að safna í brennurnar og er best að fá hreint timbur á brennurnar. Stærstur hluti þess sem fer á brennurnar eru vörubretti en einnig er fenginn afgangur af jólatréssölunni. Plast, gúmmí og unnið timbur á ekki erindi í köstinn.
Hætt verður að taka á móti efni á brennurnar þegar þær eru orðnar hæfilega stórar eða í síðasta lagi kl. 12.00 á gamlársdag.