Tími til að hætta brauðgjöf við Tjörnina

""

Varptíminn við Tjörnina er nú í hámarki og fyrstu ungarnir koma óvenju snemma úr eggjum. Því er mikilvægt að hætta brauðgjöfum því brauðið laðar að máfa sem einnig eiga til að éta litla unga.

Fyrstu andarungarnir við Reykjavíkurtjörn sáust í gær spóka sig með móður sinni í blíðviðrinu. Það var stolt stokkandarkolla sem þar var á ferð og er þetta nokkuð snemmt fyrir stokkendur til að verpa en þó ekki óeðlilegt í ljósi hlýinda undanfarið. Mörg andapör dvelja nú við Tjörnina, einkum stokkendur og skúfendur en einnig fleiri tegundir. Það má því búast við dágóðum fjölda unga í sumar ef varpið gengur vel.

Afkoma andarunga við Tjörnina ræðst einkum af því hversu gott fæðuframboðið er og einnig hvort afrán sílamáfa sé mikið eða ekki. Sílamáfar sækja einkum á Tjörnina til að baða sig og hvíla og til að éta brauð en einstaka máfur sérhæfir sig í ungum. Leiða má líkur að því að ef brauðgjöf er hætt fækki máfunum. Þess vegna er mælt með því að yfir varptímann sé brauðgjöf hætt við Tjörnina.

Önnur afleiðing brauðgjafar er að magn næringarefna í Tjörninni eykst til muna, bæði frá brauðinu sjálfu en aðallega frá þeim mikla fuglafjölda sem í brauðið sækir. Of mikið næringarefnamagn getur valdið ofauðgun í vatninu en þá fjölgar blágrænum gerlum of mikið og vatnið verður mjög gruggugt. Í verstu tilfellum getur myndast þétt skán á yfirborð vatnsins og eituráhrifa getur gætt. Ofauðgun er slæm fyrir vistkerfið og gróður og smádýralíf þrífst illa við slíkar aðstæður. Þannig getur það haft áhrif á fæðuframboð fugla sem dvelja við Tjörnina, þ.m.t. andarunga. Brauðgjöfin getur því á tvennan máta haft slæmar afleiðingar fyrir andarungana.

Mælt er með að allri brauðgjöf sé hætt frá miðjum maí og vel fram á haustið. Næg fæða er fyrir endur og aðra fugla yfir sumartímann og fram á haust. Þegar fer að kólna er gott að byrja að gefa öndunum aftur en einnig þá ætti að forðast brauð og velja frekar annað fóður, korn, fræ, hafra, afgangs salatblöð og elduð hrísgrjón sem er hollara fyrir endurnar og vistkerfið.