Tilraunaverkefni um styttri vinnuviku

Velferð

""

Næsta mánudag, 2. mars, mun Reykjavíkurborg fara af stað með tilraunaverkefni um styttri vinnuviku án þess að skerða laun. 

Starfshópur, sem skipaður var til að útfæra verkefnið, valdi heppilega vinnustaði til þessarar tilraunar. Það verða 25 starfsmenn Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts og 40 starfsmenn á skrifstofu Barnaverndar sem ætla að vinna í 35 stundir á viku í stað 40 stunda. Þessir vinnustaðir urðu fyrir valinu því þar er oftar en ekki unnið undir miklu álagi. Því þótti vert að skoða þar hvaða áhrif styttri vinnuvika hafi á starfsfólk hvað varðar heilsu, vellíðan, starfsanda og þjónustu að teknu tilliti til að þess að komi ekki niður á framleiðni, gæðum og hagkvæmni.

Tilraun með styttri vinnuviku stendur yfir í eitt ár. Hjá Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts mun hver virkur vinnudagur styttast um eina klukkustund en hjá Barnavernd lýkur hefðbundinni vinnuviku á hádegi á síðasta virka vinnudegi hverrar vinnuviku. Starfsmaður á bakvakt  tekur við brýnum verkefnum.

Með viðhorfskönnunum verður andleg og líkamleg líðan starfsmanna mæld, álag í starfi, starfsánægja, væntingar og samræmi milli vinnu og einkalífs. Hjá þjónustumiðstöðinni verður gerð þjónustukönnun áður en verkefnið fer af stað, á meðan það stendur yfir og þegar því lýkur. Einnig verður á báðum vinnustöðum fylgst með málaskrá, fjölda símtala, yfirvinnu starfsmanna, starfsmannaveltu, fjölda vinnustunda, fjarvistum og einnig kostnaði sem felst í því að lengja bakvaktir hjá Barnavernd.

Opinberir starfsmenn á Íslandi vinna lengri vinnuviku en víðast hvar í öðrum Evrópusambandsríkjum. Rannsóknir sýna að langur vinnutími dregur bæði úr framleiðni og starfsánægju.