Tilraunaverkefni til að auka þátttöku barna í frístundastarfi í Breiðholti

Skóli og frístund

""

Borgarráð hefur samþykkt að hleypa af stokkunum þriggja ára tilraunaverkefni sem hafi að markmiði að auka þátttökuhlutfall barna í íþrótta- og frístundastarfi í Breiðholti til jafns við önnur hverfi í Reykjavík.

Tilraunaverkefið felur í sér:  

· Að auka þátttökuhlutfall barna í íþrótta- og frístundastarfi í Breiðholti til jafns við meðaltal í öðrum hverfum í Reykjavík.

· Að auka nýtingu frístundakortsins í Breiðholti til jafns við meðaltal í Reykjavík.

· Að auðvelda samfélagslega þátttöku, íslenskunám og félagslega aðlögun barna með mismunandi bakgrunn að íslensku samfélagi.

Þjónustumiðstöð Breiðholts mun hafa yfirumsjón með verkefninu í samráði við íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur, skóla- og frístundasvið, Íþróttabandalag Reykjavíkur og íþrótta- og frístundaaðila í Breiðholti.

Þátttaka í íþrótta- og frístundastarfi og nýting frístundakorts í Breiðholti er lægri en í öðrum hverfum borgarinnar og þess vegna þykir rík ástæða til að huga að þátttöku og félagslegri aðlögun barna af erlendum uppruna sem þar búa svo og barna sem búa við fátækt.

Meginaðgerðir falla undir Heilsueflandi Breiðholt og eru eftirfarandi:

1. Frístundakortið nægi fyrir þátttöku í öllu íþrótta- og frístundastarfi í 1.-2. bekk
Allt íþrótta- og frístundastarf í Breiðholti fyrir börn í 1.-2. bekk grunnskóla verði í boði allt árið gegn frístundakortsframlagi borgarinnar sem er kr. 50.000 (árið 2020). Auk þess greiði Reykjavíkurborg kr. 30.000 með hverju barni þannig að framlag með hverju þeirra verði 80.000 kr. árin 2021 og 2022. Verkefnið hefst að hausti 2020 og því verði aukaframlagið fyrir það ár kr. 15.000 á hvert barn til að greiða fyrir þátttöku í verkefninu.

2. Börn í 1.-2. bekk geti prófað og fært sig á milli íþrótta- og frístundakosta án aukagjalds
Börnum á þessum aldri standi til boða að stunda, færa sig á milli og reyna sig í mörgum íþrótta- og frístundakostum gegn einu gjaldi á þessu tveggja ára tímabili. Valmöguleikarnir gætu t.d. verið knattspyrna, handknattleikur, körfuknattleikur, frjálsíþróttir, sund, keila, karate, skíði, júdó, taekwondo, fimleikar, hjólreiðar, klifur, skátastarf, skák, dans, ballett og tónlistarnám. 

3. Íþróttir og frístundir verði í boði fyrir 1.-2. bekk frá 14:00-18:00
Íþróttir og frístundir fyrir þennan aldurshóp standi til boða eftir skólalok frá kl. 14:00-18:00 á virkum dögum.

4. Frístundarúta án endurgjalds á milli 14:00-18:00
Gjaldfrí frístundarúta með leiðsögumanni þjónusti börnin á tímabilinu 14:00-18:00 alla virka daga til að auðvelda þeim að komast á milli skóla, íþróttaæfinga, frístunda og heimilis.

5. Öflug kynning á íþrótta- og frístundastarfi í öllum kimum samfélagsins
Kynning á íþrótta- og frístundastarfi verður sameiginlegt verkefni Þjónustumiðstöðvar Breiðholts, grunnskólanna, íþrótta- og frístundaaðila í náinni samvinnu við samtök íbúa af erlendum uppruna.

6. Íslenskunám, félagsleg virkjun og samfélagsleg aðlögun í íþrótta- og frístundastarfi
Sérstök áhersla verði lögð á að í íþrótta- og frístundastarfinu fari fram markviss örvun og kennsla í íslensku og félagslegum tengslum með það að markmiði að auðvelda þátttakendum félagslega aðlögun að íslensku samfélagi.

7. Víðtæk samvinna um að efla og auðvelda þátttöku barna í íþrótta- og frístundastarfi
Þjónustumiðstöð Breiðholts, grunnskólar, íþrótta- og frístundaðilar og foreldrar vinni markvisst að því að auðvelda íþrótta- og frístundaþátttöku allra barna í Breiðholti óháð bakgrunni og efnahag.

8. Styrktarsjóður til eflingar íþrótta- og frístundaþátttöku
Sérstakur sjóður verður stofnaður til að greiða íþrótta- og frístundaaðilum fyrir umframkostnað vegna þátttöku í verkefninu og foreldrum þátttakenda til að standa straum af aukakostnaði, s.s. vegna þátttöku í viðburðum, kaupa eða leigu á búnaði.

9. Íþróttaverkefni leikskólanna
Íþróttaverkefni leikskólanna fyrir elsta árgang leikskólabarna sem var starfrækt árið 2019 í öllum leikskólum Breiðholts og gaf góða raun verði starfrækt áfram á tíma tilraunaverkefnisins.

Sjá tillögu og greinargerð sem samþykkt var í borgarráðði 27. ágúst