Tilraun um söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi á Kjalarnesi

Umhverfi

""

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar boðar til íbúafundar í Fólkvangi á Kjalarnesi miðvikudaginn 30. október kl. 18 þar sem kynnt verður tilraunaverkefni í sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi frá íbúum í Grundarhverfi sem verður um leið fyrsta hverfið í Reykjavík, þar sem lífrænum eldhúsúrgangi er safnað sérstaklega.

Verkefnið er hluti af aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar í úrgangsmálum, en borgin ætlar að bjóða íbúum sínum upp á sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi fyrir árið 2020. Undirbúningur verkefnisins er í fullum gangi og mun fyrsta söfnun lífræns eldhúsúrgangs fara fram í nóvember. Í verkefninu hyggst Reykjavíkurborg gera tilraunir með hólfaskipt sorpílát við sérbýli, þannig að tveir flokkar geti rúmast innan sama íláts.

Í verkefninu verður lagt upp úr samtali við íbúa til að kanna viðbrögð og upplifun þeirra af flokkuninni og eins verða gerðar greiningar á árangri flokkunar í samstarfi við Sorpu bs. Fyrirhugað er að verkefnið standi yfir að minnsta kosti fram á mitt næsta ár, eða þar til gas- og jarðgerðarstöð SORPU bs. hefur verið tekin í notkun. Við mat á verkefninu verður byggt á upplýsingum i frá íbúum Grundarhverfis og sorphirðu borgarinnar til að sjá hvernig best verði staðið að þessari hirðu.

Lífrænn eldhúsúrgangur sem safnast í verkefninu verður jarðgerður í samstarfi við Íslenska Gámafélagið.

Á íbúafundinum gefst íbúum á Kjalarnesi tækifæri til að kynna sér verkefnið. Í byrjun nóvember verður söfnunaríláti fyrir lífrænan eldhúsúrgang dreift  á heimili í Grundarhverfi og í kjölfarið verður lífrænum eldhúsúrgangi safnað sérstaklega.