Þriðji áfangi Arnarnesvegar með gatnamótum við Breiðholtsbraut hefur verið til skoðunar um nokkurt skeið. Nú liggur fyrir tillaga að gatnamótum sem hefur ekki eins mikið rask í för með sér og mislæg gatnamót sem til stóð að byggja á sínum tíma. Hljóðvist mun með þessari leið batna fyrir nálægar íbúðir í Fellahverfi. Breytt útfærsla hefur enn fremur ekki áhrif á fyrirhugaðan Vetrargarð í Breiðholti og bætir samgöngur gangandi og hjólandi. Vegagerðin stefnir að því að framkvæmdin fari í útboð á næsta ári.
Tillagan nú er frábrugðin þeirri lausn sem kynnt var í mati á umhverfisáhrifum á sínum tíma. Hún felur í sér ljósastýrð vegamót sem þó taka mið af landfræðilegum aðstæðum en fallið yrði frá hugmyndum um fullbúin mislæg vegamót.
Minna rask með brú yfir Breiðholtsbraut
Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 var gert ráð fyrir gatnamótum í plani á þessum stað en stefna um umrædd gatnamót var sett fram með fyrirvara vegna samræmis við þágildandi svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, sem ráðgerði mislæg gatnamót. Tillaga að breyttri útfærsla gatnamótanna var kynnt í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkur í dag en hún byggir á samráði Vegagerðar, Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar og felur í sér blandaða lausn.
Gert er ráð fyrir að Arnarnesvegur fari á brú yfir Breiðholtsbraut en mæti götunni í plani á ljósastýrðum gatnamótum. Gatnamótin verða með þessari lausn ekki eins landfrek og inngrip í landslag og jarðrask og efnisflutningar verða mun minni en í öðrum mögulegum lausnum. Þá verður með brúnni til góð leið fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur milli Elliðaárdals, Seljahverfis og efri byggða Kópavogs.
Betri hljóðvist með mótvægisaðgerðum
Hljóðvist verður undir viðmiðunarmörkum með mótvægisaðgerðum. Hljóðstigið mun í flestum tilfellum lækka eða vera óbreytt samanborið við núverandi gatnakerfi fyrir áætlaða umferð árið 2030 skv. reiknilíkani. Gert er ráð fyrir 1,5 m háum hljóðvegg á brú og rampa við Breiðholtsbraut auk endurbættrar hljóðmanar milli nýrra gatnamóta og undirganga milli Jaðarsels og Suðurfells.
Kynningar og samráð í skipulagsferli
Reykjavíkurborg og Kópavogsbær munu vinna sameiginlegt deiliskipulag fyrir vegsvæðið og jafnframt verður unnið að öðrum skipulagsáætlunum er varða framkvæmdina eða umhverfi hennar. Fyrirliggjandi gögn hafa verið send Skipulagsstofnun til meðferðar. Í skipulagsferli munu fara fram kynningar og samráð. Leitast verður við að bjóða út for- og verkhönnun framkvæmdarinnar á næstunni. Vegagerðin stefnir að útboði framkvæmda árið 2021.
Vetrargarðurinn verður ekki skertur
Þegar hverfisskipulag fyrir Breiðholt var kynnt fyrr í haust bárust margar athugasemdir þar sem var lýst yfir áhyggjum af því að fyrirhuguð lagning Arnarnesvegar myndi skerða Vetrargarðinn sem á að reisa efst í Seljahverfi. Þessi nýja blandaða lausn fyrir gatnamót við Breiðholtsbraut er hagkvæm fyrir garðinn og þá fjölbreyttu starfsemi sem verður þar allan ársins hring.
Arnarnesvegur er hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem sveitarfélögin á svæðinu og Vegagerðin standa í sameiningu að.
Nánari lýsingu á þessari framkvæmd má sjá á vef Vegagerðarinnar.