Til hvers skipulag? | Reykjavíkurborg

Til hvers skipulag?

þriðjudagur, 13. mars 2018

Breytir skipulag lífi fólks? Erum við að skipuleggja of mikið? Hvernig getur skipulag lagt grunn að farsælu lífi borgarbúa? Þetta eru dæmi um spurningar sem glímt verður við á Kjarvalsstöðum 13. mars kl. 20 undir yfirskriftinni TIl hvers skipulag?

  • Frummælendur
    Frummælendur

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stendur ásamt Hjálmari Sveinssyni, formanni umhverfis- og skipulagsráðs, fyrir fundarröðinni Borgin, heimkynni okkar. Fundirnir eru haldnir á haust- og vormisseri á Kjarvalsstöðum á Klambratúni.  Næsti fundur er þriðjudaginn 13. mars kl. 20.

Yfirskrift fundarins er Til hvers skipulag? og þar verður glímt við spurningar eins og: Borgir þenjast út eða þéttast og breytast en geta borgir þróast án skipulags? Erum við að skipuleggja of mikið? Hverjir eru kostir og gallar skipulagðrar byggðar? Hvert er samhengið í skipulaginu? Breytir skipulag lífi fólks? Breytir skipulagsfræðin borgarmenningu? Getum við skipulagt kaos? Hvar er fagurfræði óreiðunnar? Er skipulagsleysi andstætt hagsmunum almennings? Getur skipulag útilokað hópa? Hvernig getur skipulag lagt grunn að farsælu lífi borgarbúa?

Til að ræða málin munu taka til máls,  Ásdís Hlökk Theodórsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar, Þórhildur Þórhallsdóttir landslagsarkitekt hjá Landmótun, Haraldur Sigurðsson skipulagsfræðingur og deildarstjóri aðalskipulags hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar ásamt Hjálmari Sveinssyni, formanni umhverfisog skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.

Þetta er 20. fundurinn í röðinni á sá síðasti á þessu misseri. Markmiðið með fundunum er að færa umræðu um skipulags- og umhverfismál í vítt og breitt samhengi. Leitað er eftir gagnrýnni og hressilegri umræðu þar sem ólík sjónarmið og reynsluheimar mætast á málefnalegum grunni. Ekki er boðið upp á átök milli andstæðra sjónarmiða heldur felst aðferðin í því að greina og opna fyrir möguleika og að fólk haldi áfram að hugsa málin eftir fundina.

Frummælendur á fundinum

Þórhildur Þórhallsdóttir er landslagsarkitekt og meðeigandi teiknistofunnar Landmótun sem sérhæfir sig í hönnun og skipulagi. Þórhildur lauk prófi í landslagsarkitektúr frá Kaupmannahöfn 2006 og hefur starfað síðan við hönnun á manngerðu umhverfi í stórum og smáum skala út um allt land. Samhliða hefur hún verið virk í stjórn Félags íslenskra landslagsarkitekta og sinnt starfi alþjóðafulltrúa félagsins. 

Ásdís Hlökk er forstjóri Skipulagsstofnunar. Hún er með M.Phil. próf í skipulagsfræðum frá Háskólanum í Reading í Bretlandi og stundaði doktorsnám í skipulagsfræðum við Kungliga Tekniska Högskolan í Stokkhólmi. Hún hefur starfað að skipulagsmálum og umhverfismati á ólíkum vettvangi – innan stjórnsýslunnar, sem ráðgjafi og við kennslu og rannsóknir í yfir tvo áratugi.

Haraldur Sigurðsson er skipulagsfræðingur og deildarstjóri aðalskipulags hjá Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Haraldur hefur starfað að skipulagsmála á Íslandi á undanförnum 30 árum, við skipulagsgerð hjá Reykjavíkurborg, á höfuðborgarsvæðinu og fyrir sveitarfélög víða um land. Jafnhliða störfum sínum sem skipulagsráðgjafi hefur hann unnið að rannsóknum og ritun sögu skipulagsmála á Íslandi. 

Tengill

Fyrri fundir - upptökur

Aðalskipulag Reykjavíkur

Fundurinn á facebook - viðburður