Þróunar- og nýsköpunarstyrkir í skóla og frístundastarfi

Skóli og frístund

""

Styrkjum að upphæð 50 milljónir var úthlutað úr B hluta þróunar og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs  Látum draumana rætast í síðustu viku. Samtals bárust 24 umsóknir fyrir um 140 milljónir en tíu öflug verkefni urðu fyrir valinu.

Verkefnin sem eru styrkt að þessu sinni eru mjög fjölbreytt og tengjast öll innleiðingu menntastefnu Reykjavíkur. Verkefnin hlúa að íslenskri tungu bæði sem móðurmáli og öðru tungumáli nemenda, efla og vinna með  stærðfræði, nýsköpun, nærsamfélaginu, sjálfsmynd, félagsfærni, líðan hinsegin barna, vanda unglingasáranna og núvitund. Öll verkefnin eiga það sameiginlegt að vilja stuðla að námi, þroska og betri líðan  barna og unglinga óháð aldri og uppruna.

Fjögur verkefni eru samstarfsverkefni frístundastarfs, leik- og grunnskóla  Fjögur verkefni byggja á samstarfi milli grunnskóla, tvö verkefni byggja á frístundasamstarfi og eitt verkefni byggir á samstarfi leikskóla. Í sjö verkefnum er byggt á samstarfi við háskóla en í umsóknum er gerð krafa um að byggt sé á rannsóknum eða að verkefni séu unnin í nánu samstarfi við fræðasamfélagið.  

Verkefnin sem hljóta styrk fyrir skólaárið 2020-2021;

Leikur, styðjandi samskipti og lærdómssamfélag sem er yfirskrift samstarfsverkefnis fjögurra leikskóla sem dreifast um borgina og unnið er í samstarfi við Rannung. verkefnið fær sjö milljónir.

Verkefnið Vertu velkomin/nn í hverfið okkar – Viltu tala íslensku við mig? er samstarfsverkefni allra grunnskólanna í Grafarvogi og Kjalarnesi og unnið er í samstarfi við HÍ og Íslenskuþorpið. Þetta verkefni hefur ekki fengið styrk áður og fær nú sex og hálfa milljón.

Fab lab verkefnið Skapandi námssamfélag í Breiðholti er samstarfsverkefni Fab Lab Reykjavík, Þjónustumiðstöðvar Breiðholts, Fellaskóla, Hólabrekkuskóla, Seljaskóla, Háskóla Íslands, Fjölbrautarskólans í Breiðholti, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, RG Menntaráðgjafar og Vísindasmiðju HÍ fær sex milljónir en verkefnið fékk líka styrk á skólaárinu sem er að ljúka.

Verkefnið Austur-Vestur eru sköpunar og tæknismiðjur í grunnskólastarfi. Það er samstarfsverkefni Ingunnarskóla, Vesturbæjarskóla, Selásskóla og Háskóla Íslands og fær núna fimm milljónir. Verkefnið fékk einnig styrk á árinu sem er að ljúka.

Lærdómssamfélag stærðfræðikennara undir leiðsögn stærðfræðileiðtoga sem er samstarf Dalskóla, Fossvogsskóla og Vesturbæjarskóla og HÍ fær fimm milljónir og er það í fyrsta skipti.

Orð eru til alls fyrst er samstarfsverkefni leik- og grunnskóla í Grafarholti og Úlfarsárdal. Eitt megin markmið verkefnisins er að styrkja og auka samstarf skóla í Grafarholti og Úlfarsárdal með það að leiðarljósi að jafna hæfni og stöðu barna í íslensku. Verkefnið hefur ekki hlotið styrk úr þróunarsjóðnum áður en fær nú fjóra og hálfa milljón.

Frístundafræðingur á miðstigi er leitt af frístundafræðingi í Gufunesbæ. Markmið verkefnisins er að efla félagsfærni, félagstengsl, sjálfsmynd og virkja þátttöku barna í Borga- og Engjaskóla og meta félagsleg tengsl eftir að þau koma í Víkurskóla. Verkefnið hefur ekki verið styrkt áður en fær nú fjórar milljónir.

Betra Breiðholt fyrir unglinga er samstarfsverkefni skóla- og frístundadeildar Breiðholts, frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs og grunnskólanna í Breiðholti. Markmiðið er að mæta flóknum og margþættum vanda unglinga í hverfinu á skjótan, skilvirkan og faglegan hátt með markvissri þjónustu stofnana í Breiðholti. Verkefnið fær fjórar milljónir og er það í fyrsta sinn.

Öll sem eitt! er samstarfsverkefni allra frístundamiðstöðva og félagsmiðstöðva, Háskóla Íslands og Samtakanna 78. Helsta markmið verkefnisins er að stuðla að bættri líðan hinsegin barna og unglinga með því að bregðast við þeim auknu þörfum á þjónustu við hinsegin börn og unglinga sem við stöndum frammi fyrir í skólum og félagsmiðstöðvum. Verkefnið hefur ekki hlotið styrk áður en fær nú fjórar milljónir.

VAXANDI er unnið í samstarfi frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar og þeim frístundamiðstöðvum og félagsmiðstöðvum sem undir hana heyra, HÍ/MVHÍ og Núvitundarsetrið. Unnið er að því að öll börn hafi sterka sjálfsmynd, trú á eigin getu og trú á að ná árangri. Verkefni fær nú sinn fyrsta styrk, fjórar milljónir.

Allar nánari upplýsingar um þróunar- og nýsköpunarsjóðinn „látum draumana rætast“ er að finna á heimasíðu Menntastefnunnar