Þrjár íslenskar hugmyndir áfram í norrænni samkeppni

Velferð

""

Þrjár íslenskar hugmyndir voru meðal 25 hugmynda sem fara áfram í samkeppni norrænu höfuðborganna fimm  og Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar um tæknilausnir í velferðarþjónustu, sem  ætlað er að stuðla að sjálfstæðu lífi fatlaðs fólks og aldraðra.

Frumkvöðlar hvaðanæva að frá Norðurlöndunum sendu inn 417 hugmyndir að lausnum um hvernig aldraðir og fatlaðir geti lifað sjálfstæðu lífi og þar af áttu Íslendingar 64 hugmyndir.
Haldið var Stefnumót í Kaupmannahöfn í maí þar sem þáttakendur sem áttu þær 75 hugmyndir sem valdar voru áfram í keppninni hittust og mynduðu tengsl sín á milli til frekari samvinnu.  Fjórar íslenskar hugmyndir voru meðal þeirra.

Nú hafa 25 hugmyndir verið valdar áfram til enn frekari þróunar og þar eru þrjú íslensk verkefni. Ylgarðurinn (Thermal wintergarden) undir verkstjórn Þórdísar Harðardóttur,  Lipri ferðalangurinn (Agile Traveller) undir verkstjórn Ósk Sigurðardóttur og að lokum  E-21, sjálfstæð og Örugg æviár (Safe and Independent Ageing), sem er verkefni unnið í samvinnu Íslendinga og Dana undir verkstjórn Víðis Stefánssonar og Nicolai Söndergaard Laugesen.

Nú munu þátttakendurnir, sem eiga umrædd verkefni, fá umtalsverða  aðstoð við að þróa viðskiptahugmynd sína enn frekar. Að lokum verða svo fimm verkefni valin í úrslit keppninnar.
Vinningshafinn í keppninni fær 17 milljón króna verðlaun til að þróa sína lausn auk þess sem sérstök verðlaun verða veitt fyrir samvinnu milli landa, eða 3,4 milljónir og tæplega 2 milljónir í nemendaverðlaun.

Markmið keppninnar er að Norðurlöndin taki forystu í að þróa lausnir í velferðarþjónustu og að þær geti nýst á heimsvísu. Það er óhætt að fullyrða að þessi  þróun ýtir undir samvinnu Norðurlandanna í að leita lausna fyrir velferðarkerfið og er þessi keppni liður í því. Með nýjum lausnum getum við lyft heilbrigðis- og velferðarþjónustu á hærra stig.

Nánar um þær hugmyndir sem fóru áfram. 
Heimasíða Nordic Innovation.