Þrjár framkvæmdir af fjórum innan viðmiða

Framkvæmdir

""

Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar kynnti í borgarráði í dag skýrslu sína um verklegar framkvæmdir og innkaupamál borgarinnar. Þær verklegu framkvæmdir sem rýndar voru í úttektinni eru framkvæmdir við Sundhöll Reykjavíkur, Mathöll Hlemmi, viðbygging við Vesturbæjarskóla og framkvæmdir við Grensásveg. Framkvæmdum við mannvirkin lauk ýmist á árinu 2017 eða 2018.

Var það niðurstaða Innri endurskoðunar að frávik þriggja verkframkvæmda sem skoðaðar voru reyndust innan óvissuviðmiða en það voru Sundhöllin, viðbygging við Vesturbæjarskóla og framkvæmdir við Grensásveg. Eins og þegar hefur komið fram í fjölmiðlum fóru framkvæmdir við Hlemm Mathöll umfram áætlun. Eins og kunnugt er voru ástæður þessa m.a. að þak hússins var afar illa farið og auka þurfti getu hússins m.t.t. rafmagns vegna starfsemi leigutaka í húsinu. Það vekur athygli að framúrskeyrsla er minni en fyrri fréttir gáfu til kynna vegna þess að hluti þeirra var ekki bókfærður á viðhald eins og heimild var fyrir. Þess vegna er kostnaður umfram upphaflega áætlun á Hlemmi ekki 102% heldur 79%.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir úttekt Innri endurskoðunar endurspegla virkt innra eftirlit og að sérstaka athygli veki að í aðeins einni af fjórum framkvæmdum fari niðurstöður fram yfir viðmiðunarmörk. 

„Skýrslan undirstrikar að Braggamálið var frávik í verklegum framkvæmdum borgarinnar. Varðandi Hlemm þá á umframkostnaður eðlilegar skýringar. Það kom á daginn í verkinu að uppsöfnuð viðhaldsþörf var vanmetin og kostnaðarsamar framkvæmdir hefðu verið óumflýjanlegar hvort sem Hlemmur hefði verið innréttaður einungis sem biðstöð strætisvagnafarþega eða sem Mathöll. Það eru því í raun engin ný tíðindi varðandi Hlemm í skýrslunni. Það hefur legið fyrir lengi að viðhaldsþörf var vanmetin í fyrstu áætlunum. Því má heldur ekki gleyma að Hlemmur Mathöll hefur náð því markmiði að vera gríðarlegt aðdráttarafl á ofanverðum Laugavegi og hefur á stuttum tíma orðið hjarta mannlífs og matarmenningar í borgini. Endurgerð Hlemms hefur haft jákvæð áhrif á allt nærliggjandi umhverfi. Næstu skref á svæðinu í kringum Hlemm er að gera andlitslyftingu á Hlemmtorgi og almenningsrýmum,“.

Innri endurskoðun setti í skýrslunni fram ábendingar um þau atriði sem betur þyrftu að fara í tengslum við verklegar framkvæmdir og innkaupamál hjá borginni. Þá hefur Innri endurskoðun farið yfir þær ábendingar sem gerðar voru í skýrslunni með stjórnendum og tengiliðum og er það mat Innri endurskoðunar að viðbrögð stjórnenda séu við hæfi og myndi ágætan grunn að aðgerðaráætlun til þess að bæta úr þeim atriðum sem bent var á.

Borgarráð samþykkti að vísa ábendingum til meðferðar í þeirri umbótavinnu sem stendur yfir við stjórnkerfisbreytingar. Þá verði nýju innkaupa- og framkvæmdaráði falið að fylgja eftir þeim ábendingum sem fram koma í skýrslunni. Þar til innkaupa- og framkvæmdaráð tekur til starfa 1. júní nk. hefur borgarráð yfirsýn yfir kostnaðaráætlanir tengdum samþykktum útboðum á verklegum framkvæmdum.

Skýrsla Innri endurskoðunar: Verklegar framkvæmdir og innkaupamál