Opnunartími sundlauga borgarinnar verður lengdur til muna á hátíðisdögum samkvæmt tillögu sem samþykkt var í dag í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði og tekur gildi frá og með páskum. Tillagan tekur mið af gagnrýni sundlaugargesta og starfsfólks á fyrirkomulag opnunartíma sundlauganna um síðustu jól. Ný áætlun mun uppfylla markmið um hagræðingu en á jafnframt að skila stóraukinni þjónustu á rauðum dögum.
Opnunartími lengist um 126 stundir á milli jólahátíða
Nýja tillagan um opnunartíma lauganna á rauðum dögum 2024, mun skila tilætluðum árangri varðandi hagræðingu en jafnframt er stefnt að því að bæta þjónustu og ánægju. Tillagan var samþykkt samhljóða af fulltrúum meirihluta og minnihluta í ráðinu.
Opnunartími sundlauga borgarinnar verður samræmdur á rauðum dögum sem einfaldar kynningu, eykur jafnræði á milli hverfa og jafnar álag, sem tryggir betur öryggi, gæði og ánægju gesta og starfsfólks. Opnunartími á stórhátíðum, eða rauðum dögum, verður aukinn umtalsvert og sem dæmi verður heildaropnun allra lauga um jól og áramót á þessu ári 219 klukkustundir, en var 93 klukkustundir jólin 2023.
Áfram verður aðeins einn dagur þar sem allar laugarnar eru lokaðar en það er á jóladag. Laugarnar verða opnar á mun fleiri rauðum dögum en áður en á móti kemur að opnunartími innan dagsins styttist í einhverjum tilvikum. Til að ná settum hagræðingarmarkmiðum verður viðhaldslokun lauga einnig lengd um þrjá daga, eða úr fimm dögum í átta.
Þá verður sú breyting gerð frá og með 1. apríl næstkomandi að laugarnar verða opnar til klukkan 21:00 laugardag og sunnudag í stað klukkan 22:00. Áfram verður opnunartími sundlauganna í Reykjavík sá lengsti á landinu eins og verið hefur.
Tekið mark á gagnrýni og aðgerðir endurskoðaðar
Menningar- og íþróttasvið Reykjavíkurborgar náði settum markmiðum varðandi hagræðingu í rekstri sundlauga borgarinnar árið 2023 en útfærsla lokunar á rauðum dögum var gagnrýnd af gestum og starfsfólki lauganna. Markmiðið var því að bregðast við gagnrýninni með útfærslu sem næði rekstrarmarkmiðum en yrði jafnframt til bóta fyrir sundgesti og starfsfólk.
Gagnrýnin laut fyrst og fremst að því að of margar laugar voru lokaðar á sama tíma. Á þeim dögum sem lokað var í fjórum laugum af sjö varð eftirspurn í hinar þrjár gjarnan langt umfram þolmörk lauganna. Fjöldi gesta varð því gríðarlega mikill í einstakar laugar, sem olli óánægju og skapaði þrýsting á öryggiseftirlit, gæði vatns, hreinlæti og fleira. Álag á starfsfólk varð því mjög mikið sem ollu meðal annars streitu hjá starfsfólki og dró úr vilja þess til vinnu á viðkomandi dögum.
Áfram aðeins einn dagur þar sem allar laugar verða lokaðar
Tillagan skilar stóraukinni þjónustuaukningu á hátíðum og verða áhrif á opnunartíma einstakra sundlauga á rauðum dögum eftirfarandi:
- Grafarvogslaug Lokuð í 2 daga árið 2024, en 13 daga árið 2023.
- Dalslaug Lokuð í 3 daga árið 2024, en 13 daga árið 2023.
- Árbæjarlaug Lokuð í 3 daga árið 2024, en 13 daga árið 2023.
- Breiðholtslaug Lokuð í 2 daga árið 2024, en 13 daga árið 2023.
- Laugardalslaug Lokuð í 1 dag eins og verið hefur.
- Sundhöllin Lokuð í 1 dag árið 2024, en 9 daga árið 2023.
- Vesturbæjarlaug Lokuð í 1 dag árið 2024, en 9 daga árið 2023.
Gert er áfram ráð fyrir að tillagan skili þeirri hagræðingu sem stefnt var að og samþykkt var í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar.
Ábendingar um bætta þjónustu eru ávallt vel þegnar og Reykjavíkurborg leggur sig fram um að koma til móts við þær eins og kostur er. Þeirri breytingu sem nú hefur verið gerð er ætlað að koma til móts við þær ábendingar.