Þjónusta Reykjavíkurborgar á neyðarstigi

Covid-19 Velferð

""

Neyðarstig almannavarna mun taka gildi á miðnætti samhliða hertum samkomutakmörkunum.

Í dag kom neyðarstjórn borgarinnar saman og fór yfir viðbragðsáætlanir borgarinnar. Neyðarstjórnir einstakra sviða hafa verið að störfum um helgina og fengið ráðgjöf frá almannavörnum um útfærslu viðbragðsáætlana með það að markmiði að tryggja þjónustu borgarinnar eins og mögulegt er.  

 

Áhrif á þjónustu Reykjavíkurborgar

 

 •  Ekki er gert ráð fyrir breytingum á starfsemi leik- og grunnskóla.
 •  Sundlaugar verða áfram opnar en með þrengri fjöldatakmörkunum, eða 50% af leyfilegum fjölda samkvæmt starfsleyfi. Sé hámarksfjöldi gesta ekki skráður í starfsleyfi skal miða gestafjölda við 50% þess fjölda sem fataskiptarými gerir ráð fyrir. Börn fædd árið 2005 og síðar eru ekki talin með í gestafjölda. Sameiginlegir snertifletir verði sóttheinsaðir a.m.k. einu sinni á dag.
 • Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn verður lokaður þar til annað verður tilkynnt.
 • Unnið er að því að halda menningarhúsum borgarinnar opnum í samráði við sóttvarnaryfirvöld.
 • Þjónustuborð Reykjavíkurborgar í Borgartúni og Ráðhúsi Reykjavíkur verða áfram opin á auglýstum tíma en bent er á símaver og netspjall.

Grímuskylda í félagsmiðstöðvum eldri borgara

Á velferðarsviði er allt kapp lagt á að koma í veg fyrir þjónustuskerðingu á þjónustumiðstöðvum og þeim 73 sólarhringsstöðum sem sviðið heldur úti: Á sambýlum og íbúðakjörnum fyrir fatlað fólk, á skammtímadvölum fyrir fötluð börn, í gistiskýlum og áfangaheimilum fyrir heimilislaust fólk, á hjúkrunarheimilunum Droplaugarstöðum og Seljahlíð og fimm þjónustuíbúðakjörnum fyrir aldrað fólk.

Sérstök áhersla er lögð á að þjónusta fyrir fólk sem er í viðkvæmri stöðu skerðist ekki eða eins lítið og mögulegt er, samhliða því að fyllsta öryggis sé gætt varðandi smitvarnir. Öll þjónusta sviðsins er því að mestu venjubundin en vakin er athygli á eftirfarandi atriðum:

 • Opnunartími þjónustumiðstöðva borgarinnar er óbreyttur. Fólk er hins vegar hvatt til þess að hringja frekar í þjónustuver Reykjavíkurborgar í síma 411 11 11 og reyna að ganga frá málum í gegnum síma, heldur en að mæta á staðinn. Grímuskylda er í þjónustumiðstöðvum.
 • Grímuskylda er nú á félagsmiðstöðvum eldri borgara.
 • Félagsstarf verður ekki skert en vegna fjöldatakmarkana verður að skrá sig fyrirfram á viðburði til þess að tryggja 20 manns í rými og tveggja metra reglu, sem er við lýði í félagsstarfinu.
 • Mötuneyti borgarinnar verða áfram opin en þau sem borða þar þurfa nú að skrá sig fyrirfram í mat og matargestir fá úthlutuðum tíma til þess að borða.
 • Mötuneytið á Vitatorgi veitir áfram þjónustu við íbúa í húsinu en lokað verður fyrir aðra. Þeir sem ekki búa á Vitatorgi en hafa nýtt sér matarþjónustuna þar geta sótt um heimsendan mat með því að hringja í síma 4119450 eða senda pöntun á maturinnheim@reykjavik.is.
 • Gistiskýlinu í Grandagarði hefur verið lokað tímabundið vegna smits sem kom upp hjá starfsmanni. Notendur þjónustunnar geta nýtt sér gistiskýlið á Lindargötu þangað til opnað verður aftur í Grandagarði. 

Áfram verður eins metra reglan í gildi og grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð.