Þjóðhátíðardagurinn verður haldinn hátíðlegur í miðborg Reykjavíkur þann 17. júní. Dagskráin er fjölbreytt að vanda með skrúðgöngum, tónleikum og fleiru.
Í boði verða fjölskylduskemmtanir, tónleikar, götuleikhús, dansveisla, sirkus, leiktæki, veitingatjöld, íþrótta- og fornbílasýningar og margt fleira.
Morgundagskrá á Austurvelli kl. 10-12
Dagskráin hefst kl. 10.00 með samhljómi kirkjuklukkna í Reykjavík og síðan hefst hátíðarguðsþjónustu í Dómkirkjunni þar sem Sr. Elínborg Sturludóttir prédikar og biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir og Sr. Sveinn Valgeirsson þjóna fyrir altari. Dómkórinn syngur undir stjórn Kára Þormars en einsöngvari er Jón Svavar Jósefsson.
Hátíðarathöfn á vegum Alþingis og forsætisráðuneytisins hefst á Austurvelli kl. 11.10 en henni verður sjónvarpað og útvarpað á RÚV. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jóns Sigurðssonar og forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir flytur hátíðarræðu. Fjallkonan flytur ávarp en ávallt hvílir leynd yfir því hver hún er þar til á hátíðarathöfninni. Að lokinni athöfn fer skrúðganga frá Austurvelli í kirkjugarðinn við Suðurgötu þar sem forseti borgarstjórnar, Líf Magneudóttir, leggur blómsveig frá Reykvíkingum á leiði Jóns Sigurðssonar forseta og Ingibjargar Einarsdóttur. Lúðrasveit verkalýðsins leikur við athöfnina.
Skrúðgöngur kl.13.00
Skátar og hestamenn frá Fáki leiða skrúðgöngu kl. 13 frá Hlemmi niður Laugaveg og í Hljómskálagarð. Lúðrasveit Reykjavíkur leikur og hljómsveit allra landsmanna, Stuðmenn reka lestina á pallbíl. Skátar leiða á sama tíma skrúðgöngu frá Hagatorgi í Hljómskálagarð. Lúðrasveitin Svanur leikur.
Þjóðhátíð í Hljómskálagarðinum kl. 14.00-18.00
Þegar skrúðgöngur koma í Hljómskálagarðinn hefjast stórtónleikar sem standa til kl. 18.00. Meðal þeirra sem koma fram eru Heimilistónar, Daði Freyr, hljómsveitin Ateria sem sigraði Músíktilraunir í ár, Ronja Ræningjadóttir, Floni og Aron Can lýkur tónlistarveislunni kl. 18.
Í Hljómskálagarðinum verður afar fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Keppnin Sterkasti maður Íslands hefst kl. 13.30 en keppnin er ein elsta og virtasta kraftakeppni heims og rekur sögu sína frá árinu 1985.
Skátar sjá um náttúruþrautabraut, leiktæki og hoppukastala og er frítt í öll tæki. Sirkus Íslands verður með sýningar þar sem litríkir karakterar bregða á leik og börn og fullorðnir fá að spreyta sig í allskyns sirkuskúnstum. Víkingafélagið Víðförull sýnir lifnaðarhætti víkinganna og listhópar Hins hússins og Götuleikhússins troða upp. Brúðubílinn verður á sínum stað og skemmtir ungum sem öldnum. Ýmsar uppákomur verða á víð á dreif um garðinn Blaðrarinn, Diva Hollywood og Skeggjaða konan.
Dansveisla í Ráðhúsinu kl. 15.00 – 18.00
Háskóladansinn mun sýna dans og svo verður harmonikkuball frá 15.30-17.00.
Gestir eru hvattir til að fjölmenna í miðborgina og taka þátt í hátíðahöldunum.