Þjóðarhöll rís í Laugardal

Undirritun viljayfirlýsingar um byggingu þjóðarhallar í Laugardal

Ríki og Reykjavíkurborg eru sammála um að ráðast í byggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum í Laugardal. Stefnt er að því að framkvæmdum ljúki 2025.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um byggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum. Þjóðarhöllin mun uppfylla kröfur fyrir alþjóðlega keppni í innanhússíþróttagreinum og stórbæta íþróttaaðstöðu fyrir skóla og íþróttafélög í Laugardal.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir það risastóran áfanga að taka af skarið með að reisa þjóðarhöll fyrir innanhússíþróttir í Laugardal. „Í því felst að stórbæta umgjörð landsliða og leikja en jafnframt að stórbæta aðstöðu til æfinga og keppni fyrir börn og unglinga í Laugardal. Þróttur og Ármann og skólarnir í hverfinu verða eftir þetta með fyrsta flokks aðstöðu. Laugardalshöllin opnar nú í ágúst eftir miklar endurbætur og þegar þjóðarhöll er tilbúin verðum við komin með aðstöðu á heimsmælikvarða fyrir börnin í Laugardalnum. Tímaáætlun verkefnisins er metnaðarfull og stefnt að því að taka þjóðarhöll í notkun árið 2025. Til að það gangi eftir þurfa allir að leggjast á eitt, ríki, borg, sérsambönd og Þróttur og Ármann þannig að þarfir hvers og eins séu vel skilgreindar og byggingin verði sú lyftistöng í Laugardal sem metnaður okkar stendur til.“

Ríki og Reykjavíkurborg munu tryggja fjármögnun á stofnkostnaði í sínum langtímaáætlunum. Kostnaðarmat mun liggja fyrir eftir frumathugun og endanlega hönnun. Ákveðið hefur verið að kostnaðarskipting um framkvæmdir og rekstur taki mið af nýtingu mannvirkisins sem og þeim kröfum sem hvor aðili hefur; ríkið vegna þarfa sérsambanda og alþjóðlegra krafna til keppnisaðstöðu landsliða og Reykjavíkurborg vegna þarfa íþróttafélaga og íþróttakennslu.

Þegar liggja fyrir greiningar á þörfum sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) fyrir æfingar og keppnir landsliða og á þörfum Reykjavíkurborgar vegna íþróttafélaga og íþróttakennslu skóla.

Sérstök framkvæmdanefnd verður stofnuð um þjóðarhöll í innanhússíþróttum sem mun sjá um frumathugun og undirbúning á fyrirkomulagi byggingaframkvæmda, s.s. vegna hönnunar, tæknilegrar útfærslu, rekstrarforms og hvernig staðið verður að fjármögnun. Notkunarmöguleikar mannvirkisins verða kannaðir til hlítar.

Ríki og borg munu standa sameiginlega að hugmyndasamkeppni um hönnun mannvirkis og útlit og eru sammála um að leggja kraft í verkið. Stefnt er að því að framkvæmdum sé lokið árið 2025.

Áfram verður unnið að undirbúningi þjóðarleikvangs fyrir frjálsíþróttir í Laugardal og þjóðarleikvangs í knattspyrnu. Markaðskönnun vegna þjóðarleikvangs í knattspyrnu verður unnin með það að markmiði að draga fram skýra valkosti um næstu skref í uppbyggingunni.