Þjálfun í íslensku í gegnum leik og vináttu
Sammála er heiti nýs verkefnis hjá Reykjavíkurborg sem tengir börn sem eru með íslensku að móðurmáli og börn sem eru að læra íslensku í gegnum þrautir og leiki sem miða að því að auka málkunnáttu og tengsl.
Sammála er hluti af 300 milljóna króna samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Bloomberg Philanthropies, en fulltrúar þess heimsóttu Vesturbæjarskóla í morgun til að kynna sér verkefnið.
Hugmyndin spratt upp úr samtölum við foreldra og kennara
Markmiðið með verkefninu Sammála er að auka íslensku í málumhverfi barna samhliða því að stuðla að betri tengslum þeirra. Börnin sem taka þátt í Sammála kallast málfarar, dálítið eins og geimfarar, en lagt er upp með að kanna tungumál og leika sér með orð og hugtök.
Hugmyndin að verkefninu spratt upp úr samtölum við foreldra og kennara þegar farið var að vinna með áskorun um að bæta stöðu fjöltyngdra barna í Reykjavík.
Verkefni sem unnin eru í samstarfi við Bloomberg hefjast á áskorun sem tengist þjónustu borgarinnar og áður en hafist er handa við að leita lausna er farið í rannsóknir á viðfangsefninu sem fela meðal annars í sér ítarleg notendaviðtöl og samtöl við sérfræðinga. Í dag eru um 70 tungumál töluð í grunnskólum Reykjavíkur.
Eitt af því sem kom fram í viðtölunum var að börn með íslensku sem annað tungumál eru ekki mikið að eyða tíma sínum í íslensku málumhverfi. Þá skipta íslenskumælandi börn gjarnan yfir í ensku þegar þau ræða við börn sem eru að æfa sig í íslensku. Í viðtölunum kom ennfremur fram að öll börn vilja eignast vini.
Setja sig í spor geimfara í 12 vikur
Unnið hefur verið með Sammála verkefnið í tilraunaskyni í fjórum grunnskólum í Reykjavík þar og tóku 48 börn þátt. Verkefnið stendur yfir í 12 vikur og börnin hittast einu sinni í viku, fara í skemmtilega leiki, gera æfingar og setja sig í spor þeirra sem eru í nýju landi að læra nýtt tungumál.
Börnin sem taka þátt kallast málfarar. Myndheimurinn í kringum verkefnið byggir á geimnum. Börnin setja sig í spor geimfara sem eru að kanna nýja plánetu, læra nýtt tungumál og kynnast nýrri menningu.
Mikil ánægja með verkefnið sem verður innleitt á landsvísu
Mikil ánægja er með tilraunaverkefnið og skólastjórnendur segja að það hafi jákvæð áhrif á allt skólasamfélagið. Öll börnin segjast hafa eignast nýja vini meðal skólafélaga sinna í tengslum við þátttöku og börn með íslensku að móðurmáli segjast skilja betur upplifun þeirra sem eru með önnur móðurmál. Þá hefur aukist meðvitund um mikilvægi þess að tala íslensku í kringum börn sem eru að læra tungumálið.
Stefnt er að því að innleiða Sammála á landsvísu af Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Allt námsefni er tilbúið og afhent skólum sem taka þátt ásamt fyrirmælum fyrir kennara.