Það þurfa ekki allir að vera eins

Friðrik Halldór Kristjánsson, hlaut fyrstu verðlaun í ljósmyndasamkeppni mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar fyrir ljósmynd sína Það þurfa ekki allir að vera eins. Úrslit í samkeppninni voru tilkynnt í Ráðhúsi Reykjavíkur á Menningarnótt, laugardaginn 18. ágúst.  Friðrik hlaut í verðlaun 150.000 krónur. Myndin sýnir á einfaldan en einlægan hátt að þrátt fyrir að við séum öll mismunandi þá eigum við rétt á að njóta sömu mannréttinda. Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar mun nota myndina á veggspjald til að kynna mannréttindi og mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.

Önnur verðlaun hlaut Gísli Hjálmar Svendsen fyrir myndina Sameinaðir stöndum vér. Myndin talar til mannréttinda utangarðsfólks og ákvæðis í stjórnarskrá Íslands sem kveður á um að öllum sem þess þurfi, skuli tryggður í lögum, réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Gísli hlaut í verðlaun miðbæjarkort Reykjavíkur með 10.000 kr. inneign, menningarkort Reykjavíkur og árskort í sundlaugar ÍTR.

Þriðju verðlaun hlaut Gunnar Marel Hinriksson fyrir myndina Réttlát málsmeðferð. Myndin skírskótar til ákvæðis í mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrá Íslands sem kveður á um að öllum borgurum skuli tryggð réttlát málsmeðferð fyrir dómstólum. Í verðlaun var menningarkort Reykjavíkur og árskort í sundlaugar ÍTR.

Markmið keppninnar var að vekja athygli á mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, mannréttindum almennt og mikilvægi þess að borgarbúum sé ekki mismunað. Alls bárust inn 53 myndir í keppnina og vill mannréttindaskrifstofa þakka öllum þeim sem sendu inn myndir. Sýning á úrslitamyndunum sem voru 24 talsins stendur yfir í Ráðhúsi Reykjavíkur til 31. ágúst næstkomandi.

Í dómnefnd sátu Bjarni Jónsson fulltrúi mannréttindaráðs, Elsa Hrafnhildur Yeoman forseti borgarstjórnar og Pjetur Sigurðsson ljósmyndari.