Tendrun Friðarsúlunnar - IMAGINE PEACE TOWER 2021

Menning og listir Mannréttindi

""

Friðarsúlan í Viðey, listaverk Yoko Ono (f. 1933), verður tendruð í 15. sinn á fæðingardegi tónlistarmannsins Johns Lennon laugardaginn 9. október klukkan 20.00 en hann hefði orðið 81. ára þann dag. Friðarsúlan mun varpa ljósi upp í himininn til 8. desember sem er dánardagur Lennons.

Vegna samkomutakmarkana vegna heimsfaraldurs COVID-19 verður tekið á móti 500 gestum í Viðey þar sem haldinn verður viðburður í tengslum við tendrunina. Yoko Ono býður upp á fríar siglingar yfir sundið. Siglt verður frá Skarfabakka frá kl. 18.00 til 19.30.  Panta þarf miða í Viðeyjarferjuna hjá Eldingu. Munið að aðeins 500 miðar eru í boði.

Dagskrá:

18:30 Ganga á vegum Listasafns Reykjavíkur um Richard Serra

18:45 Söguganga á vegum Borgarsögusafns Reykjavíkur

Göngurnar hefjast við Viðeyjarstofu.

19.45 Ásgeir Trausti flytur tónlist sína við Friðarsúluna

19.58 Borgarstjóri Dagur B. Eggertsson flytur ávarp

20.00 Friðarsúlan tendruð undir laginu Imagine með John Lennon

Opið verður í Naustinu og Viðeyjarstofu og hægt verður að kaupa léttar veitingar.

Beint streymi verður frá athöfninni á heimasíðu Reykjavíkurborgar, reykjavik.is, og er fólk hvatt til þess að fylgjast með tendrun Friðarsúlunnar og hugsa um frið.

Fyrsta ferja eftir tendrun Friðarsúlunnar siglir frá Viðey kl. 20.30.

Friðarsúlan - IMAGINE PEACE TOWER

Það var ósk Yoko Ono að súlan risi í Reykjavík þar sem Ísland er friðsamt, herlaust land, staðsett mitt á milli Norður-Ameríku og Evrópu. Verkið er í formi óskabrunns þar sem orðin „Hugsa sér frið“ hafa verið grafin í á 24 tungumálum. Upp úr brunninum stígur ljóssúla sem er samsett af fimmtán geislum sem sameinast í einu sterku ljósi.

Verkið er nátengt öðru listaverki Yoko Ono; Óskatré (e. Wish Tree) frá 1996. Yoko Ono býður fólki  að skrifa persónulegar óskir um frið og hengja á greinar trjáa sem komið er fyrir á völdum stöðum í heiminum, til dæmis í Viðey, í Ráðhúsi Reykjavíkur og í húsakynnum Listasafns Reykjavíkur ár hvert í tengslum við tendrun Friðarsúlunnar. Óskirnar telja nú yfir eina milljón en þeim er safnað saman víðs vegar að úr heiminum. Ljósgeisli súlunnar lýsir svo á táknrænan hátt óskum fólks frá öllum heimshornum upp í himinhvolfið, hvatningarljós friðar og samstöðu.

 Allar upplýsingar um Friðarsúluna má finna á heimasíðunni imaginepeacetower.com