Tendrun Friðarsúlunnar í Viðey - Hugsum okkur frið

Friðarsúlan í Viðey. Ljósmynd Sigurjón Ragnar
Friðarsúlan  í Viðey. Ljósmynd Sigurjón Ragnar

Kveikt verður á Friðarsúlunni í Viðey í 18. sinn miðvikudaginn, 9. október klukkan 20.00. Í eyjunni verður friðsæl athöfn þar sem Valdimar Guðmundsson og Örn Eldjárn flytja tónlist og Einar Þorsteinsson borgarstjóri verður með ávarp. Boðið verður upp á skipulagðar gönguferðir. Ferðir út í Viðey eru í boði höfundar listaverksins, Yoko Ono, og fara frá Skarfabakka klukkan 17:30.

Friðarsúlan „Imagine Peace Tower“ er útilistaverk eftir Yoko Ono sem var reist í Viðey árið 2007. Verkið er sterkt kennileiti í borginni og þörf áminning til okkar allra um að halda á lofti hugsjónum friðar, sérstakalega nú þegar stríð geisa víða um veröldina. Yoko Ono skapaði Friðarsúluna til minningar um eiginmann sinn John Lennon heitinn og til að minna á mikilvægi friðarboðskapar. Verkið logar frá fæðingardegi hans til dánardægurs þann 8. desember. 

Friðarathöfn í Viðey
Fjölmenni við Friðarsúluna í Viðey. Ljósmynd Ragnar Th. Sigurðsson

Ljóskeila Friðarsúlunnar, sem lýsir upp kvöldhimininn, á upptök sín í óskabrunni en á hann eru grafin orðin „hugsa sér frið“ (e. imagine peace) á 24 tungumálum og er það vísun í lagið „Imagine“ eftir John Lennon. Mörg af frægustu verkum Yoko Ono eru svokölluð þátttökuverk þar sem hún býður almenningi að taka þátt í sköpun listarinnar og þeirra á meðal er „Óskatré“ sem finna má víða um heim. Fólk skrifar niður óskir sínar um frið og farsæld og hengir á trén. Óskunum er svo safnað saman og þær varðveittar í Friðarsúlunni. Undir Friðarsúlunni liggja hátt í milljón óskir sem safnast hafa frá fólki.

Gagngerar endurbætur hafa verið gerðar á listaverkinu, jafnt tæknibúnaði sem steinlögn og brunni og mun Friðarsúlan lýsa þéttar en fyrr. Reykjavíkurborg, Orkuveitan og Yoko Ono sameinuðust um framkvæmdina.

Siglingar og Strætó

Þann 9. október býður Yoko Ono upp á fríar siglingar yfir í Viðey þar sem tendrun súlunnar hefst kl. 20.00. Siglt verður frá Skarfabakka  klukkan 17:30, 18:00, 18:30, 19:00 og 19:30, og aftur til baka eftir þörfum. Panta þarf miða í Viðeyjarferjuna, miðar verða takmarkaðir við 5 manns á hverja bókun og samtals eru 1200 miðar í boði. Nánari upplýsingar á heimasíðu Eldingar

Fríar strætóferðir verða frá Ráðhúsi Reykjavíkur með viðkomu við Hörpu og þaðan að Skarfabakka. Fyrsti vagn fer frá Ráðhúsinu klukkan 17:30 og ekið verður til klukkan 19.00.

Fyrsta ferja eftir tendrun Friðarsúlunnar siglir frá Viðey klukkan 20:30. Hægt verður að taka strætó frá Skarfabakka að Ráðhúsinu frá klukkan 20:40 og þar til lokið verður við að flytja gesti úr Viðey. 

Dagskrá fyrir athöfn:

17:45 Ganga á vegum Listasafns Reykjavíkur um verk Richard Serra og Yoko Ono.
18:00 Söguganga á vegum Borgarsögusafns Reykjavíkur.
18:45 Ganga á vegum Listasafns Reykjavíkur um verk Richard Serra og Yoko Ono
19:00 Söguganga á vegum Borgarsögusafns Reykjavíkur.

Tendrun Friðarsúlunnar

19.45 Valdimar Guðmundsson og Örn Eldjárn flytja tónlist við Friðarsúluna.
19.58 Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, flytur ávarp.
20.00 Friðarsúlan tendruð undir laginu Imagine eftir John Lennon og Yoko Ono.

Hægt verður að kaupa veitingar í Viðeyjarstofu.