Friðsæl athöfn fór fram í Viðey í gærkvöldi að viðstöddu fjölmenni. Þetta var í átjánda sinn sem kveikt var á Friðarsúlunni sem er útilistaverk eftir Yoko Ono sem var reist í Viðey árið 2007.
Verkið er sterkt kennileiti í borginni og þörf áminning til okkar allra um að halda á lofti hugsjónum friðar, sérstakalega nú þegar stríð geisa víða um veröldina. Yoko Ono skapaði Friðarsúluna til minningar um eiginmann sinn John Lennon heitinn og til að minna á mikilvægi friðarboðskapar. Verkið logar frá fæðingardegi hans, 9. október, til dánardægurs þann 8. desember.
Einar Þorsteinsson borgarstjói flutti stutt ávarp áður en ljós friðarsúlunnar var tendrað.
Uppselt var í ferðir Eldingar frá Skarfabakka út í Viðey og lögðu hátt í 1200 gestir leið sína út í eyju til að vera við athöfnina. Veður var stillt en kalt og klæddu viðstödd sig eftir veðri.
Tónlistarmennirnir Valdimar Guðmundsson og Örn Eldjárn fluttu nokkur lög og að því loknu flutti Einar Þorsteinsson borgarstjóri stutt ávarp. Kveikt var á ljóssúlu Friðarsúlunnar, sem samanstendur af fimmtán geislum, undir laginu Imagine eftir John Lennon.
Takk fyrir komuna í Viðey.
Hugsum um frið!