Menningarnótt, stærsti árlegi viðburður borgarinnar, var haldin laugardaginn 24. ágúst síðastliðinn og tókst hátiðin afar vel. Miðborgin iðaði af lífi og viðburðir á hverju götuhorni. Að baki hátíðinni liggur margra mánaða undirbúningur hjá Reykjavíkurborg í samvinnu við þá fjölmörgu aðila sem að undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar koma.
Fyrstu undirbúningsfundir fyrir Menningarnótt byrja strax í janúar þegar samtal hefst við viðbragðsaðila eins og lögreglu og slökkviliðið og samstarfsaðila eins og Strætó, rafskútuleigur, fulltrúa ferðaþjónustunnar, rekstraraðila í borginni og marga fleiri. Á hverju ári er tekinn með lærdómur frá síðustu hátíð og viðbragð og skipulag bætt. Strax í byrjun sumars fer allt á fullt í samstarfi borgarinnar og hinna fjölmörgu viðburðahaldara sem gera hátíðina svo frábæra og þá er byrjað að vinna úr umsóknum í viðburðapott Landsbankans. Þegar nær dregur er farið yfir öryggismál, götulokanir, bílastæði, umhirðu, fánaborgir, hjólastanda, salernismál, rafskútustæði, kynningamál og margt fleira. Þessi fjölmennasta þátttökuhátíð Íslands er sannkallað samvinnuverkefni almennings, stofnana, atvinnulífsins og borgar.
Götulokanir og vöktun
Byrjað er að undirbúa miðborgina fyrir Menningarnóttina klukkan þrjú aðfaranótt laugardags þar sem hátíðasvæðið er lokað fyrir umferð akandi vegfarenda frá 7:00 að morgni til 23:00 og tryggja aðgengi gangandi fólks á sjálfan daginn. Fyrir Reykjavíkurmaraþonið þarf að sjá um uppsetningu á búnaði og loka götum til að greiða leið keppenda. Um leið og maraþoni lýkur hefst samantekt á því sem hlaupinu fylgir.
Lokunum fylgir meðal annars eftirfarandi:
- 20 bílar og um 400m af götulokunarbúnaði.
- 57 leiðbeiningaskilti
- 150-200 keilur
- 150 umferðarmerki
- 100 harmonikkuhlið
Samtals voru 12 mannaðar lokanir og 63 ómannaðar lokanir.
Mikilvægur liður á hátíðinni er að sjá til þess að miðborgin sé hrein. Vaskur hópur starfsfólk hjá borgarumhirðu Reykjavíkurborgar sáu um að hirða upp rusl og tæma ruslafötur fljótt og örugglega og voru mörg að vinnu allan sólarhringinn fyrir og eftir hátíðina.
Starfsfólk sem byrjaði vaktina aðfaranótt laugardags fór heim um klukkan tvö á sunnudagsmorgun og nýr hópur mætir klukkan fimm á sunnudagsmorgun í tiltekt sem varir fram yfir hádegi.
Varlega áætlað koma um 150 manns hjá Reykjavíkurborg að undirbúningi og framkvæmd Menningarnætur að þessu sinni.
Eftirlit með ungmennum
Frá eftirmiðdegi og þar til hátíðinni lauk – og í sumum tilfellum töluvert lengur, var stór hópur af starfsfólki á ferðinni til að veita ungu fólki aðstoð og ráðgjöf ef með þurfti. Samtals voru um 31 starfsmenn félagsmiðstöðva,19 frá Reykjavíkurborg og 12 frá öðrum sveitarfélögum að störfum á Menningarnótt. Fjórir starfsmenn fylgdu lögregluteymum og félagsráðgjöfum, einn starfsmaður starfaði inni í athvarfi og 26 manns störfuðu á vettvangi í 6 félagsmiðstöðvateymum. Starfsfólkið sem var mjög sýnilegt á vettvangi ræddi við ungmenni sem voru í miðborginni og veitti aðstoð þar sem þörf var á. Samstarfið við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu gekk afskaplega vel.
Heimsóknir á vef Reykjavíkurborgar
Heimsóknir á reykjavik.is í síðustu viku voru alls 196.412 sem gerir vikuna þá stærstu frá upphafi mælinga. Stærsti dagurinn var á laugardag þegar heimsóknir voru rétt tæplega 70.000. Alls voru skoðaðar 400.683 síður og þar af voru síður menningarnætur skoðaðar rúmlega 200.000 sinnum og þar af um 30.000 sinnum á ensku. Rúmlega 83% af notendum sem skoða upplýsingar um Menningarnótt gera það í gegnum snjallsíma.