Takk fyrir hugmyndirnar og metþátttöku!

Samgöngur Velferð

""

Met var slegið í hugmyndasöfnuninni Hverfið mitt 2020-2021 sem lauk á miðnætti þann 20. janúar sl. Reykjavíkurborg vill þakka öllum þeim sem tóku þátt í hugmyndasöfnuninni sem að þessu sinni stóð í sex vikur.

Þegar söfnuninni lauk á miðnætti þann 20. janúar höfðu 1321 hugmynd borist sem er nýtt met. Aldrei hafa fleiri heimsótt vefinn eða um 69 þúsund íbúar sem er 73,15 prósent aukning frá árinu 2019.

10,070 manns skráðu sig inn og tóku beinan þátt í innsendingu og mótun á 1321 hugmynd sem er 55 % aukning frá 2019.

Til að bæta fleiri tölum við þá voru 300 þúsund heimsóknir á síðuna hverfidmitt.is í þetta skipti miðað við 215 þúsund í síðustu hugmyndasöfnun og er það 39,5 % aukning.

Flest hverfin bættu sig frá fyrra ári  

Hverfin bættu um betur í hugmyndasöfnuninni í ár sem sýnir að borgarbúar kunna vel að meta að fá að taka þátt í að gera hverfin skemmtilegri.

Ef við skoðum þátttökuna í hverfunum þá trónir Breiðholtið á toppnum með 209 hugmyndir, sem er nýtt met. Til hamingju með það.

Í öðru sæti er Háaleiti-Bústaðir með 181 hugmynd, Laugardalur er í þriðja sæti með 150 hugmyndir og Grafarvogurinn kemur fast á hæla Laugardalsins með 149 hugmyndir. Kjalarnesið, sem er fámennasta hverfið í borginni, er með 59 hugmyndir en var með 25 síðast og það er 136% aukning á milli ára. Alveg til fyrirmyndar.

Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnastjóri, er mjög ánægður með þátttökuna og segir að íbúar eigi hrós skilið fyrir að hafa sýnt verkefninu svona mikinn áhuga. „Við erum hæstánægð og þökkum öllum fyrir þátttökuna. Það er gaman að sjá hvað íbúar Reykjavíkur eru hugmyndaríkir og eru greinilega farnir að þekkja þetta verkefni og vita að þeir geta haft áhrif á sitt nærumhverfi.“

Tímasetningar varðandi framkvæmd verkefnisins

· Mat hugmynda, samráðsferli og undirbúningur kosninga  -  janúar til september 2021

· Íbúakosningar um framkvæmdir  -  september til október 2021                                                                                                                                    

· Framkvæmd kosinna hugmynda  -  apríl til september 2022