Sýningaropnun: Einskismannsland – Ríkir þar fegurðin ein?

Mannlíf Menning og listir

""

Fjöldi valinkunnra íslenskra myndlistarmanna á verk á sýningunni Einskismannsland – Ríkir þar fegurðin ein? sem er viðamesta sýning safnsins á yfirstandandi sýningarári. Hún verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum laugardaginn 2. júní kl. 12.00 á hádegi, og í Hafnarhúsi sama dag kl. 15.00, samhliða opnunarhátíð Listahátíðar í Reykjavík.

Fjöldi valinkunnra íslenskra myndlistarmanna á verk á sýningunni Einskismannsland – Ríkir þar fegurðin ein? sem er viðamesta sýning safnsins á yfirstandandi sýningarári. Hún verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum laugardaginn 2. júní kl. 12.00 á hádegi, og í Hafnarhúsi sama dag kl. 15.00, samhliða opnunarhátíð Listahátíðar í Reykjavík.

Rithöfundarnir Andri Snær Magnason og Elísabet Kristín Jökulsdóttir opna sýninguna á Kjarvalsstöðum. Þau eiga jafnframt texta í áhugaverðri sýningarskrá sem endurspeglar viðfangsefni sýningarinnar á fjölbreyttan hátt.

Með heiti þessarar viðamiklu sýningar; Einskismannsland – Ríkir þar fegurðin ein? er vísað til hálendis Íslands og hugmynda landsmanna um það. Þar er ýjað að fáförnum víðernum og villtri náttúru þar sem áhrifa mannsins gætir varla. Með greiðari aðgangi að svæðinu og fjölbreyttri nýtingu hefur afstaða fólks breyst en þó má enn greina tilhneigingu til að viðhalda ímynd hálendisins sem ósnortins landsvæðis.

Í rúma öld hefur einskismannsland birst í verkum myndlistarmanna. Þeir hafa á hverjum tíma endurspeglað þau ólíku viðhorf sem uppi hafa verið um öræfin og jafnframt átt ríkan þátt í að móta þau viðhorf. Á sýningunni eru verk eftir frumkvöðla íslenskrar myndlistar, ný verk samtímalistamanna sem sérstaklega eru unnin fyrir sýninguna, lykilverk sem fengin eru að láni og verk úr safneign Listasafns Reykjavíkur. Að auki er brugðið upp ljósmyndum íslenskra ljósmyndara í gegnum tíðina ásamt skissum listamanna frá hálendinu. Þá má á sýningunni sjá sögulegt sjónvarpsefni og kvikmyndir.

Á Kjarvalsstöðum eru verk eftir Ásgrím Jónsson, Eirík Smith, Finn Jónsson, Guðmund Einarsson frá Miðdal, Guðrúnu Kristjánsdóttur, Jóhannes S. Kjarval, Jón Stefánsson, Júlíönu Sveinsdóttur, Kristin Pétursson, Kristínu Jónsdóttir, Ragnheiði Jónsdóttur Ream, Stefán Jónsson Stórval, Svein Þórarinsson, Þorbjörgu Höskuldsdóttur og Þórarin B. Þorláksson. 

Í Hafnarhúsi eru verk eftir Önnu Líndal, Einar Fal Ingólfsson, Einar Garibaldi Eiríksson, Georg Guðna Hauksson, Hallgerði Hallgrímsdóttur, Heklu Dögg Jónsdóttur, Húbert Nóa Jóhannesson, Katrínu Sigurðardóttur, Kristin E. Hrafnsson, Ólaf Elíasson, Ósk Vilhjálmsdóttur, Pétur Thomsen, Rögnu Róbertsdóttur, Rúrí, Sigurð Guðjónsson, Steinunni Gunnlaugsdóttur og Unnar Örn J. Auðarson.

Sýningin er unnin af sýningarnefnd sem skipuð er safnstjóra, deildarstjóra sýninga og miðlunar, sérfræðingi í deild safneignar og rannsókna, utanaðkomandi sérfræðingi og hönnuði. Auk veglegrar sýningarskrár er fjölbreytt dagskrá tengd sýningunni í báðum sýningarhúsum fyrir börn og fullorðna. Sjá á heimasíðu safnsins.

Sýningin er hluti af Listahátíð í Reykjavík og hluti af dagskrá tileinkaðri 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar studdi við verkefnið, sem og Safnasjóður.