Sýningaropnun – Brynhildur Þorgeirsdóttir: Frumefni náttúrurnnar

Menning og listir Mannlíf

""

Laugardaginn 6. apríl kl. 16.00 verður opnuð ný sýning í Ásmundarsafni við Sigtún, Frumefni náttúrunnar, með verkum myndlistarmannsins Brynhildar Þorgeirsdóttur. Á sýningunni er sjónum sérstaklega beint að verkum hennar sem prýða almannarými og nálgun hennar við list sem hluta af daglegu umhverfi manna.

Laugardaginn 6. apríl kl. 16.00 verður opnuð ný sýning í Ásmundarsafni við Sigtún, Frumefni náttúrunnar, með verkum myndlistarmannsins Brynhildar Þorgeirsdóttur. Á sýningunni er sjónum sérstaklega beint að verkum hennar sem prýða almannarými og nálgun hennar við list sem hluta af daglegu umhverfi manna.

Verk Brynhildar eru lífrænir skúlptúrar sem spretta upp úr persónulegum og kröftugum myndheimi hennar. Óræð furðudýr og náttúrufyrirbrigði sem hún færir í form eru auðþekkjanleg og bera sterk höfundareinkenni. Útilistaverk Brynhildar eru hluti af náttúrunni og náttúran er hluti af þeim.

Af verkum Brynhildar í almannarými má nefna Landslagsmynd í Garðabæ, Klett sem stendur við Leirvoginn í Reykjavík og Pendúl hússins í Menntaskólanum í Kópavogi. Einnig stendur útilistaverk eftir Brynhildi í Alingsås í Svíþjóð.

Brynhildur Þorgeirsdóttir (1955) stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Gerrit Rietveld Academie í Hollandi og California College of Arts and Crafts, auk sérnáms í gleri við Orrefors í Svíþjóð og Pilchuck Glass School í Bandaríkjunum.

Verk hennar er að finna í öllum helstu söfnum landsins auk safna  í ýmsum löndum austan hafs og vestan. Brynhildur hefur áður sýnt í Listasafni Reykjavíkur þar á meðal eru tvær viðamiklar einkasýningar; á Kjarvalsstöðum árið 1990 og í Hafnarhúsi árið 2005. Hún hefur hlotið styrki og viðurkenningar fyrir verk sín og meðal annars tvisvar fengið úthlutun úr The Pollock- Krasner Foundation.

Brynhildur verður með leiðsögn um sýningu sína sunnudaginn 5. maí kl. 15.00.

Sýningunni Frumefni náttúrunnar lýkur 10. júní en hún er önnur í röð einkasýninga fimm listamanna sem eru höfundar listaverka í borginni. Listamennirnir sem sýna í Ásmundarsafni á árinu, eftir að sýningu Brynhildar lýkur eru Jóhann Eyfells, Helgi Gíslason og að lokum Ólöf Nordal.

Áfram stendur sýning á verkum Ásmundar Sveinssonar, Undir sama himni, en Ásmundur (1893-1982) er höfundur höggmynda sem prýða meira en 20 áberandi staði í borgarlandinu og víða á landsbyggðinni. Sýningin stendur út árið 2019.

Á báðum sýningunum eru minni frummyndir verka, skissur og teikningar auk listaverka sem eru einkennandi fyrir list Ásmundar og Brynhildar og hafa hugmyndaleg eða formræn tengsl við verk þeirra í almannarými.

Árið 2019 er ár listar í almannarými hjá Listasafni Reykjavíkur og er sýningin sem opnuð verður á laugardag liður í því markmiði safnsins að beina sjónum manna að þeim listaverkum sem við njótum sem hluta af daglegu lífi.

Sýningarstjórar sýninganna eru Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna og Yean Fee Quay, verkefnisstjóri sýninga hjá Listasafni Reykjavíkur.  

Hjálmar Sveinsson, formaður stjórnar Ásmundarsafns, opnar sýninguna.