Hanna Guðrún Sigurjónsdóttir er Reykvíkingur ársins 2015. Hún starfar sem þroskaþjálfi í Fellaskóla og er formaður húsfélags fjölbýlishúss við Kóngsbakka.
Hanna Guðrún var tilnefnd af nágranna sínum í fjölbýlishúsinu að Kóngsbakka í Neðra - Breiðholti en þar hefur hún verið dugmikil fyrirmynd hvað varðar flokkun á rusli, umhverfisvernd og kærleika og umhyggju gagnvart nágrönnum sínum.
Hanna Guðrún hefur verið formaður húsfélagsins í Kóngsbakka um nokkurra ára skeið en þar hefur hún staðið fyrir fræðslustarfi um flokkun sorps sem hefur haft þau áhrif að sorptunnum hefur verið fækkað um tvær í hverjum stigagangi með tilheyrandi lækkun sorphirðugjalda fyrir íbúana.
Íbúarnir flokka nú allan pappír og pappa frá almennu heimilissorpi og skila á grenndarstöðvar eða til endurvinnslustöðva Sorpu. Sumir flokka einnig plast, textíl og málma frá.
Íbúar í Reykjavík hafa val um það hvort þeir fá sér bláa tunnu, tunnu frá einkaaðilum eða fara með pappír og pappa og önnur flokkunarefni sjálfir og skila. Þannig geta þeir sparað sér umtalsverð sorphirðugjöld, m.a. vegna þess að ef helstu úrgangsefni eru flokkuð frá s.s. pappír, pappi, plast og málmar, minnkar umfang sorps svo mikið að hægt er að fækka ílátum eða fá spartunnu sem hirt er á 20 daga fresti og kostar helmingi minna.
Frábær fyrirmynd
Í Kóngsbakkanum var erfitt um vik að fjölga tunnum og því brá Hanna Guðrún á það ráð að fræða íbúana um flokkun og hefur leitt þá í gegnum þetta ferli sem hefur leitt til sparnaðar fyrir alla í fjölbýlishúsinu. Sjálf flokkar Hanna Guðrún einnig plast, málma og lífrænan úrgang frá sínu heimilissorpi. Lífræna úrganginn fer hún með til moltugerðar í sumarhúsi sem hún á í Borgarfirði.
„Hanna Guðrún er ótrúleg manneskja og hefur verið frábær fyrirmynd fyrir okkur í Kóngsbakkanum“, segir nágranni hennar. „Það þyrfti að vera ein svona kona í hverri blokk í Reykjavík“.
Vel liðinn þroskaþjálfi í Fellaskóla
Hanna Guðrún starfar sem þroskaþjálfi í Fellaskóla í Breiðholti. Þar hefur hún einnig látið til sín taka í umhverfismálum því hún er í umhverfisnefnd skólans sem hefur innleitt Græn skref Reykjavíkurborgar í skólastarfinu, en í þeim felst m.a. flokkun alls úrgangs.
Samstarfsfólk hennar í skólanum ber henni vel söguna og segir hana ganga fumlaust og ákveðið til verka. „Hún er fyrirmyndarstarfsmaður og á þennan heiður svo sannarlega skilinn“, segir Kristín Jóhannesdóttir, skólastjóri Austurbæjarskóla sem áður starfaði sem skólastjóri Fellaskóla.
„Að auki lætur hún sér annt um nágranna sína og er alltaf tilbúin til að aðstoða þá sem hafa lent í skakkaföllum eða eiga um sárt að binda“, segir nágranni hennar í fjölbýlishúsinu að Kóngsbakka.
Landaði maríulaxi í Elliðaánum í morgun
Vel viðraði til laxveiða í morgun þegar Hanna Guðrún opnaði Elliðaárnar í boði borgarstjóra og Stangaveiðifélags Reykjavíkur sem er með árnar á leigu. Hún fékk fyrsta laxinn í Miðkvörn fyrir neðan Fossinn. Honum var landað rétt um hálfátta og naut Hanna Guðrún dyggrar aðstoðar Ásgeirs Heiðars leiðsögumanns við veiðina. Laxinn var hrygna, um 62 sentimetrar að lengd. Þetta var maríulax Hönnu Guðrúnar.
Um klukkan átta landaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri smálaxi sem tók á Breiðunni. Það var lítill hængur, rétt um 51 sentimetri að lengd, en skömmu síðar landaði hann vel haldinni hrygnu sem var 61 sentimetri. Þá var borgarstjórinn í Reykjavík kominn með kvótann og varð að hætta veiðum.