Svifryksmengun verður líklega yfir heilsuverndarmörkum

Umhverfi Heilbrigðiseftirlit

""

Búist er við svifryksmengun yfir heilsuverndarmörkum fyrsta dag ársins vegna flugelda og veðurskilyrða. Borgarbúar eru hvattir til að sýna aðgát og huga að börnum og gæludýrum ásamt því að ganga rétt frá flugeldarusli.

Töluvert minna af flugeldum var flutt inn til landsins árið 2017 en árið 2016. Í ár voru flutt inn 578 tonn af flugeldum sem er 84 tonnum minna en árið 2016 en þá voru flutt inn 662 tonn. Þó er leyfilegt að selja afganga af flugeldum frá 2016.

Hávaðamengun verður töluverð og eru borgarbúar hvattir til að huga vel að gæludýrum sínum. Best er að halda köttum inni dagana í kringum áramót og hafa hunda alltaf í ól þegar þeim er hleypt út, þó það sé aðeins út í garð.

Veður

Hæg austanátt, léttskýjað og kalt verður á miðnætti þegar nýtt ár gengur í garð. Það er því auðvelt að spá töluverðri loftmengun alla nýársnótt og það eru litlar líkur á úrkomu fyrsta dag ársins.

Svifryk

Fyrsti janúar 2018 verður því líklega fyrsti svifryksdagur ársins vegna flugeldamengunar og veðurskilyrða. Heilsuverndarmörkin á sólarhring eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á þjónustusíðu borgarinnar um loftgæði en þar má sjá staðsetningu loftgæðamælistöðva í Reykjavík.

Mælistöðvar Umhverfisstofnunar við Grensásveg og í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum geta dottið út tímabundið vegna bilana í nettengingu. Ef það gerist þá skal miða við loftgæðafarstöðvar Heilbrigðiseftirlitsins sem að þessu sinni eru staðsettar annars vegar við Hringbraut 26 og hinsvegar við Eiríksgötu 2.

Fólk með viðkvæm öndunarfæri, hjarta- og æðasjúkdóma og börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir svifryki. Æskilegast er fyrir þennan hóp að vera innandyra þegar mest gengur á í kringum um miðnættið og loka gluggum. Ef svifryksmengun verður eins mikil og búist er við gæti heil­brigt fólk einnig fundið fyr­ir ert­ingu og óþæg­ind­um í önd­un­ar­fær­um.

Hávaði

Hávaði vegna flugelda verður oft mikill, sérstaklega frá stórum skotkökum. Foreldrar ættu að gæta að börnum sínum því þau eru viðkvæmari en fullorðnir fyrir hávaða og dýraeigendur að dýrum sínum.

Brennur

Söfnun í þær tíu áramótabrennur sem verða í Reykjavík sem flestar eru tendraðar kl. 20.30. Brennur er staðsettar við Ægisíðu, Suðurhlíðar, Suðurfell, Rauðavant, Gufunes, Kléberg á Kjalarnesi, Úlfarsfell, Geirsnef og í Laugardal og Skerjafirði. Sjá nákvæma staðsetningu á korti. http://reykjavik.is/frettir/aramotabrennur-i-reykjavik

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur eftirlit með brennunum ásamt Lögreglunni og Slökkviliðinu á Höfðuborgarsvæðinu. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur jafnframt eftirlit með hreinsun á brennustað.

Gleðilegt nýtt hreint ár

Eftir áramótin má oft finna flugeldarusl víða um borg. Mikilvægt er að koma þessu rusli á sinn stað áður en það brotnar niður og verður að drullu. Þó svo að flugeldar séu úr pappa, þá er notaðu leir í botninn sem gerir það að verkum að pappinn sem eftir verður er ekki hæfur til endurvinnslu. Flugeldarusl fer í almennt sorp, nema ósprungnir flugeldar sem fara í spilliefnagáminn á endurvinnslustöðvum SORPU.

Hreinsun borgarlandsins er kostnaðarsöm og eru borgarbúar því eindregið hvattir til að láta ekki sitt eftir liggja og safna saman því mikla magni af flugeldaleifum sem fellur til eftir sprengingar áramótanna. Reykjavíkurborg vill minna borgarbúa og gesti á að taka flugeldaleifarnar með sér, ganga frá þeim daginn eftir og fara með til förgunar 2. janúar þegar endurvinnslustöðvar  SORPU opna.

Mælst er til þess að fólk skili því sem safnast á endurvinnslustöðvar SORPU bs. en setji ekki í tunnur við heimili. Ónotuðum skoteldum ber jafnframt að  skila sem spilliefni á endurvinnslustöðvum Sorpu.

Meginatriði er að fara gætilega, passa börnin, nota hanska og hlífðargleraugu og njóta stundarinnar á öruggan hátt.

Tenglar

Endurvinnslustöðvar Sorpu

Flugeldaleifar

Flugeldar og dýrahald

Loftgæði 

Áramótabrennur í Reykjavík 

Myndband af áramótum á Skólavörðuholti