Svifryksdagar líklegir næstu daga

Heilbrigðiseftirlit

""

Búast má við að styrkur svifryks verði hár næstu daga. Allir sem eru með Stræótappið geta fengið fríar ferðir mánudaginn 8. apríl. Reykjavíkurborg hvetur þá sem geta til að hvíla bílinn næstu daga.

Hækkun á styrk svifryks við umferðargötur

Sólarhringsstyrkur svifryks (PM10) er nokkuð hár í dag, 7. apríl. Klukkan 11:00 var sólarhringsmeðaltal svifryks við Njörvasund/Sæbraut 53 míkrógrömm á rúmmetra. Sjá má ryk þyrlast upp á umferðargötum þegar ferðast er um borgina. Nú er hægur vindur, götur þurrar og litlar líkur á úrkomu. Miklar líkur eru aftur á móti á að styrkur svifryks verði hár við umferðargötur því búist er við svipuðum veðurfarsaðstæðum næstu daga. Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.

Hvíla bílinn, frítt í strætó

Gott ráð til að draga úr mengun er að hreyfa ekki bílinn og því vill Reykjavíkurborg hvetja borgarbúa og alla sem geta breytt út af vananum til að hvíla bílinn  á morgun og næstu daga ef hægt er. Strætó bs mun bjóða fólki að sækja frían dagspassa í Strætóappinu. Hægt verður að nálgast passann undir „Mínir miðar“ í appinu og gilda þeir út mánudaginn 8. apríl.

Taka naglana úr umferð

Einnig er stefnt að því að rykbinda flesta þjóðvegi og stofnbrautir í þéttbýli Reykjavíkur á mánudag eða þriðjudag. Eigendur bifreiða sem eru á nagladekkjum eru hvattir til að skipta yfir á sumardekk eins fljótt og auðið er því ekki er leyfilegt að aka um á nagladekkjum eftir 15. apríl.

Loftgæði.is

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á loftgæði.is. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík og annars staðar á landinu. Loftgæðafarstöðvar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eru nú staðsettar við Njörvasund/Sæbraut og Fossaleyni/Víkurveg í Grafarvogi.

Reykjavík 7. apríl 2019