Styrkur svifryks (PM10) verður líklega yfir heilsuverndarmörkum í Reykjavík í dag, þriðjudaginn 11. febrúar. Í dag er hægur vindur, götur þurrar og engar líkur á úrkomu.
Klukkan 10 var hálftímagildi svifryks við mælistöðina á Grensásvegi 153 míkrógrömm á rúmmetra en sólarhrings heilsuverndarmörkin eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.
Næstu daga er búist við að þurrviðri og auknum vindi sem getur þyrlað upp ryki af þurri jörðu og valdið rykmengun. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til.
Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á www.reykjavik.is/loftgaedi en þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík m.a. mælistöð á Grensásvegi. Önnur loftgæðafarstöðva Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er að þessu sinni staðsett við leikskólann Hólaborg við Suðurhóla.