Svarthöfði í Reykjavík

Betri hverfi Stjórnsýsla

""

Bratthöfði mun í framtíðinni heita Svarthöfði. Tillaga um nefna götu í höfuðið á persónu úr Star Wars barst á hugmynda- og lýðræðisvefinn Betri Reykjavík fyrir nokkru síðan og var send umhverfis- og skipulagsráði til meðhöndlunar. Ráðið samþykkti breytinguna á síðasta fundi sínum og verður skilti sett upp innan tíðar.  Mátturinn er því greinilega með Betri Reykjavík. 

„Það vantar götu kennda við persónu úr Stars Wars. Það er ótrúlega sorglegt að borgaryfirvöld hafi ekki ennþá svarað kalli fólksins um að gefa einhverri götu í höfðunum nafnið Svarthöfði. Það liggur svo beint við.“ Þannig hljóðaði hugmyndin eða tillagan sem sett var á Betri Reykjavík.

Tsjúbakki í Breiðholti

Hugmyndin fékk mikið fylgi en 67 voru með hugmyndinni en 4 á móti. Nokkur umræða myndaðist á vefnum og var þess getið að Svarthöfði væri til sem örnefni auk þess sem gerðar voru tillögur að fleiri nafnabreytingum gatna, s.s. Anakinn í Hafnarfirði, Tsjúbakki (Chewbacca) í Breiðholti og að nefna götu eftir Dufgussonum á Sturlungaöld. Nefnt var að það ætti að láta styttu af Svarthöfða nægja.  

Engin fasteign skráð við Svarthöfða

Tillaga byggingarfulltrúinn í Reykjavík: „Lagt er til að samþykkt verði að breyta heiti Bratthöfða, sem liggur milli Sævarhöfða og Stórhöfða, í Svarthöfða. Engin fasteign er skráð við Bratthöfða en skoða mætti hvort festa megi næstu hús, sem teljast nú til Stórhöfða, til heimilis við hina nýnefndu götu.

Með tillögu byggingarfulltrúa fylgdi eftirfarandi umsögn: „Það getur verið við hæfi að nefna hluti í umhverfinu eftir nafntoguðum fyrirbærum hvers tímabils í sögu mannkyns, hvort sem er uppdiktuðum eða raunverulegum. Mörg dæmi eru um það í nafngiftum gatna í Reykjavík að þær séu nefndar eftir skáldsagnapersónum og er því ekki úr vegi að nefna götu í Höfðahverfinu Svarthöfða. Það er þó ekki mælt með því að nafni Bíldshöfða verði breytt með þessum hætti þar sem mikil starfsemi fer fram við götuna og kostaði því mikla og langdregna vinnu að koma nýju nafni til skila“. 

Tengt efni:

Betri Reykjavík