Sundlaugarnar í Reykjavík munu opna eina mínútu eftir miðnætti 18. maí og verða opnar alla nóttina.
Margir eru orðnir óþreyjufullir að komast í sund en sundlaugarnar í Reykjavík hafa verið lokaðar síðan 24. mars vegna COVID-19 faraldursins. Starfsfólk sundlauganna hefur notað tímann vel til að dytta að, mála og þrífa bæði innanhúss og utan. Því ætti allt að vera hreint og fínt þegar gestir flykkjast í laugarnar í Reykjavík á miðnætti 18. maí.
Þeim sem ætla að stunda laugarnar á næstunni er þó bent á að fylgja öllum reglum varðandi smitvarnir út í æsar og hlýða Víði í hvívetna. Þá munu helmingi færri fá aðgang að laugunum en starfsleyfi hverrar og einnar leyfir á meðan enn er smithætta.
Eftir næturopnun þann 18. mun hefðbundinn opnunartími taka við.
Eins og segir í leiðbeiningum sóttvarnalæknis er áhersla lögð á að hver og einn beri ábyrgð á eigin athöfnum og minnt er á að við erum öll almannavarnir.
Hægt er að lesa nánar um ákvörðun heilbrigðisráðherra varðandi opnun sundlauga og annarra baðstaða hér.