Nokkrar götur í miðborginni verða tímabundnar göngugötur í sumar. Tilgangurinn er að skapa aukið og betra rými fyrir gangandi vegfarendur, mannlíf og starfsemi.
Skipulags- og samgönguráð samþykkti í dag að að bæta við tímabundnum göngugötum frá 5. júní til 1. október 2020. Um er að ræða Laugaveg milli Frakkastígs og Klapparstígs, Vatnsstíg milli Laugavegar og Hverfisgötu og Bankastræti milli Ingólfsstrætis og Lækjargötu.
Sumargöngugötur eru útvíkkun á þeim varanlegu göngugötusvæðum sem nú hafa verið staðfest í deiliskipulagi. Vörulosun verður heimil með sama hætti og á varanlegum göngugötum og aðgengi íbúa og starfsemi með bílastæði inni á lóð við göturnar verður tryggt.
Samkvæmt árlegum könnunum er meirihluti borgarbúa ánægður með göngugötur í miðbænum.
Almenn umferð og bifreiðastöður verða óheimilar. Akstur vegna vöruafgreiðslu verði heimilaður
kl. 07.00 til 11.00 virka daga og kl. 08.00 til 11.00 á laugardögum á tímabilinu.
Tímabundnar göngugötur verða merktar með viðeigandi merkjum. Búið er að setja upp umferðarmerki við varanlegu göngugöturnar.