Stytting vinnuvikunnar - Jákvæð áhrif á ólíkum starfsstöðvum

Mannréttindi

""

Skýrsla um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg á árunum 2015-2017 sýnir jákvæð áhrif verkefnisins um styttingu vinnuvikunnar þó að það birtist með ólíkum hætti á mismunandi starfsstöðvum. Þetta kemur fram í skýrslu stýrihóps um styttingu vinnuvikunnar.

Fyrsti áfangi verkefnis um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar hófst í mars 2015 hjá Skrifstofu þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts og Barnaverndar en haustið 2016 bættust við leikskólinn Hof, Laugardalslaug og heimaþjónusta og heimahjúkrun í efri byggð.  Með því að fjölga vinnustöðum var hægt að dýpka rannsóknina og kanna möguleg áhrif styttingar vinnuvikunnar á ólíkum starfsstöðum.

Verkefnið hafði jákvæðari áhrif en væntingar stóðu til á öllum vinnustöðum nema einum. Það dró úr fjarvistum og hugarfar fólks var almennt jákvætt til styttingar eða því að hafa einhvern sveigjanleika í starfi. Í skýrslunni er hægt að sjá samanburð og niðurstöður frá þeim vinnustöðum sem tóku þátt sem og tölur um vinnumarkað í Evrópu.

Margir háskólanemar sýndu verkefninu áhuga og fjölluðu um það í skólaverkefnum og ritgerðum. Stýrihópur um verkefnið mat það svo veturinn 2017 að mikilvægt væri að þróa verkefnið og kanna með markvissum hætti hvort styttri vinnuvika hefði áhrif á starfsstaði sem glíma við manneklu og/eða vildi hópurinn einnig láta kanna langtímaáhrif þess að vinna styttri vinnuviku. 

Nú er hafinn annar áfangi tilraunaverkefnis borgarinnar um styttingu og nú taka 100 starfsstaðir og 2200 starfsmenn þvert á borgina þátt í því. Vinnuvikan styttist um eina til þrjár klukkustundir eftir vali starfsstaða og útfærslan hjá hverri vinnueiningu er nokkuð sveigjanleg eða eins og hentar starfseminni á hverjum stað. Verkefnið stendur til ágústloka 2019 en þá verður unnin lokaskýrsla um verkefnið og hún kynnt forystu stéttarfélaganna.

Skýrslan í heild sinni

Upptaka frá málþingi um styttingu vinnuvikunnar, sem haldið var 7. febrúar sl.