Styrkur til barna á tekjulægri heimilum framlengdur

Covid-19 Velferð

""

Umsóknarfrestur vegna sérstaks íþrótta- og tómstundastyrks fyrir börn hefur verið framlengdur til 15. apríl. Styrkurinn nemur 45 þúsund krónum fyrir hvert barn. 

Tekjulægri fjölskyldur geta sótt um sérstakan íþrótta- og tómstundastyrk fyrir börn, sem kemur til viðbótar hefðbundnum styrkjum, til dæmis þeim sem felast í Frístundakortinu. Styrkurinn er hluti af aðgerðapakka ríkisins sem ætlað er að veita mótvægi vegna áhrifa Covid-19-faraldursins. Markmiðið með honum er að jafna tækifæri barna til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Upphaflega var umsóknarfrestur 1. mars en nú hefur verið tekin ákvörðun um að framlengja hann til 15. apríl. 

Styrkurinn er veittur vegna barna sem eru fædd á árunum 2005–2014 og búa á heimilum þar sem heildartekjur framfærenda voru að meðaltali lægri en 740.000 krónur á mánuði á tímabilinu mars–júlí 2020. Styrkurinn er sem fyrr segir að fjárhæð 45 þúsund krónur fyrir hvert barn. Hann má nota til að niðurgreiða þátttökugjöld vegna íþróttaiðkunar, tónlistarnáms eða annarra tómstunda. Hægt er að koma með kvittanir fyrir íþrótta- og
tómstundastarfi sem greitt var fyrir allt frá hausti 2020.

Smelltu hér til að kanna hvort þú átt rétt á styrk.