Styrkjum úthlutað úr Miðborgarsjóði

Mannlíf Menning og listir

""

Borgarráð hefur samþykkt úthlutun úr Miðborgarsjóði en í ár var úthlutað í fyrsta sinn úr sjóðnum.

Auglýst var eftir styrkjum í Miðborgarsjóð í sumar og var umsóknartími frá 15. júní til 5. júlí. Alls bárust 35 umsóknir um styrki úr sjóðnum, samtals að fjárhæð 119 mkr. Til úthlutunar voru 30 milljónir króna samkvæmt fjárhagsætlun Reykjavíkurborgar.

Á fundi verkefnisstjórnarinnar þann 21. september sl. voru  kynntar tillögur að úthlutun og þær í kjölfarið samþykktar og afgreiddar til borgarráðs.

Alls var lagt til að tólf verkefni verði styrkt að upphæð 24.9 mkr. og hefur borgarráð samþykkt þá tillögu. 

Eftirtalin verkefni fá því styrk úr Miðborgarsjóði fyrir árið 2017

  • Miðborgin okkar fær 15 milljónir króna en samtökin hafa stuðlaða að samstarfi rekstraraðila í miðborginni síðastliðin ár og markaðssett miðborgina sem miðstöð mannlífs, menningar, verslunar og þjónustu. Samtökin eru með nálægt 150 meðlimi sem starfa í miðborginni.
  • Verkefnið Skítamix fær hálfa milljón króna en það er nýsköpunarverkefni sem gengur út á að finna vistvæna leið til að halda hundaskít af götum borgarinnar er hundaeigendur nota jafnan plastpoka til að hreinsa upp skít eftir hunda sína.
  • Íbúasamtök Miðborgarinnar fá eina milljón í þrjú verkefni sem nefnast Heil brú, Hverfisgöngur og Átthagafélög innflytjenda
  • Slökun í borg fær eina milljón króna til að efna til slökunarstunda á mismunandi stöðum í miðborginni á tímabilinu ágúst 2017 fram í ágúst 2018.                                                           
  • Vefur hverfablaðs Miðborgar og Hlíða fær hálfa milljón til að birta tölublöð rafrænt á vef.
  • Arkitektafélag Íslands fær tvær milljónir til að gera fimm myndbönd um arkitektúr og þróun bygginga í miðborginni. Myndböndin munu fræða, auka samtal og vekja áhuga almennings á arkitektúr og sögu miðborgarinnar.
  • Samtök um bíllausan lífsstíl fá fjögur hundruð þúsund  til að halda málþing um fjölbreytta samgönguhætti með alþjóðlegum fyrirlesara.                                                   
  • Miðbæjarfélagið í Reykjavík fær hálfa milljón króna til rannsóknar fyrir verkefnið Konur í kaupmennsku  en félagið hyggst kanna af hverju færri konur koma að atvinnurekstri í miðborginni en karlar.                                     
  • Lúpína ehf  fær eina milljón í styrk til verkefnis sem nefnist Hljómhrif en markmiðið með því er að skapa gagnvirkt umhverfi  þar sem notandinn stígur inn í stóra útfærslu af hljóðmagnara og skapar þannig sín eigin hljómhrif út í umhverfið með því að tala, syngja og hvísla.                                                                
  • Lúpína ehf fær einnig eina milljón í styrk til verkefnisins Borgarhúsgögn  en það snýst um að skapa borgarhúsgögn sem endurspegla og eru innblásin af umhverfi sínu í Reykjavík annað hvort í formi, lit eða efnisvali.                                                           
  • Tamara Cocan  fær eina milljón til verkefnis sem nefnist Endurheimt verslunar- og  þjónusturýmis á jarðhæð. Verkefnið snýst um að rannsaka og kortleggja verslunar- og þjónusturými á jarðhæð.    
  • Hannesarholt ses fær eina milljón til verkefnisins Rætur Reykjavíkur en það er samvinnuverkefni almennings, fræða og stofnana um söfnun og varðveislu hversdagssögu mannlífs og byggðar í Reykjavíkur á gagnvirku notendadrifnu vefsvæði. Fyrirmyndin er PhilaPlace.org sem var komið á fót  í Fíladelfíu í Bandaríkjunum.