Styrkja ungt fólk við að aðlagast á nýjum slóðum

Velferð Mannlíf

""

Í sumar fara þrjú ný verkefni af stað á þjónustumiðstöðvum borgarinnar sem öll miða að því að bæta líf og auka virkni ungs fólks af erlendum uppruna. Verkefnin þrjú hlutu nýverið styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála.  

Verkefnin þrjú eru fjölbreytt og verða unnin af hendi í þremur mismunandi þjónustumiðstöðvum borgarinnar. Öll miða þau að því að bæta þjónustu við fólk á aldrinum 16 til 19 ára með annað móðurmál en íslensku. Alls staðar er lögð áhersla á að starfsfólk af erlendum uppruna komi að skipulagningunni. Í Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis er þróunarverkefni farið af stað sem kallast Tengivirkið, en það miðar að því að tryggja sem best að allir nýir íbúar í hverfum Laugardals og Háaleitis myndi tengsl við nærumhverfið og hvert annað. Þegar hafa tveir starfsmenn verið ráðnir til að sinna verkefninu, þau Kristín Olga Gunnarsdóttir sem er umsjónarmaður verkefna og Ahmad Thabet sem vinnur að kynningarefni um hverfi ÞLH og er í samstarfi við Tónabæ og vinnuskólann.

Eins og vítamínsprauta inn í starfið

Verkefnið framundan hjá þjónustumiðstöðinni er víðfeðmt en meðal annars á að gera aðgerðaáætlun sem ætlað er að auka skilvirkni í þjónustu þjónustmiðstöðvarinnar við nýja íbúa af erlendum uppruna. Þá er markmiðið að kynna ungt fólk fyrir félagslegum tengingum í hverfunum til að auðvelda því aðlögun að samfélaginu. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við Borgarbókasafnið í Kringlunni, frístund, íþróttafélög og fleiri. Helga Margrét Guðmundsdóttir, verkefnastjóri í Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis, segir styrkinn virka eins og vítamínsprauta inn í starfið. „Ég hlakka til að vinna þetta verkefni. Við viljum fjölga mannamótum og félagsstarfi hjá 16–20 ára aldurshópnum. Auk þess starfar fólk af erlendum uppruna á okkar starfsstöðum og í skóla- og frístundastarfi sem við munum fá til liðs við okkur í þetta þróunarverkefni. Það er spennandi að fá að kynnast fólki frá öðrum heimshlutum og þróa þessa menningarbrú. Með því víkkum við sýn okkar á hinn stóra heim og okkur sjálf.“

„Okkur ber líka skylda til að læra af þeim“

Í Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts verður, í samstarfi við flóttamannateymi velferðarsviðs og Hitt húsið, farið af stað með hópastarf fyrir unga einstaklinga sem hafa komið á eigin vegum til Íslands, hafa fengið vernd en eiga ekki fjölskyldu hér á landi. Oft eru þetta ungir karlmenn og er markmiðið að fræða þá um mikilvæga þætti samfélagsins, sem eykur líkur á að þeir öðlist skilning og þekkingu á því, valdeflist, verði öruggari í daglegu lífi og taki í framhaldinu frekar þátt í samfélaginu. Að sögn Trausta Jónssonar verkefnastjóra er þörfin á slíkri þjónustu mikil og því sérstaklega ánægjulegt að geta nú farið af stað með verkefnið. Ásamt honum koma þær Ólöf Karítas Þrastardóttir og Sigurborg Íris Vilhjálmsdóttir að uppbyggingu hópastarfsins. „Þeir ungu menn sem koma hingað eftir langt og strangt, jafnvel áralangt ferðalag eru oft ekki vel læsir á íslenska menningu og það samfélag sem hér er fyrir. Okkur sem erum hér fyrir ber skylda til að aðstoða þá við að komast inn í samfélagið og koma í veg fyrir myndun jaðarhópa sem eiga undir högg að sækja. Okkur ber líka skylda til að læra af þeim og bjóða þeim möguleika til að deila sinni þekkingu, reynslu og áhrifum sem hópar úr öðru menningarsamfélagi geta boðið okkur,“ segir hann. 

Unnið að bættri aðlögun nemenda við framhaldsskólann

Í þjónustumiðstöðinn Miðgarði fer verkefnið „Tími til að tengjast“ af stað en það er unnið í nánu samstarfi við Borgarholtsskóla. Markmið þess er að að bæta aðlögun nemenda af erlendum uppruna. „Verkefnið hjá okkur er er tvíþætt. Annars vegar er ætlunin að tengjast þeim nemendum sem eru af erlendum uppruna og eru að byrja í skólanum og veita þeim þá þjónustu og kynningu á samfélaginu eins og þörf er á í hverju tilfelli. Hinsvegar er að vera með hópastarf fyrir þá nemendur Borgarholtsskóla af erlendum uppruna sem eru að detta út úr námi og aðstoða þá við að komast afur í virkni,“ útskýrir Ragnar Harðarson, verkefnastjóri í Miðgarði. „Í hópastarfinu okkar koma þau til með að fá ráðgjöf og aðstoð við það að komast aftur í virkni, um leið og við verðum með hópastarf sem miðar að því að styrkja þau og valdefla. Fyrir okkur í Miðgarði er þetta virkilega spennandi verkefni sem býður uppá marga möguleika á því að stækka og um leið að hjálpa okkur við að grípa betur þá einstaklinga sem flosna uppúr námi.“