Stýrir undirbúningi að samþættri þjónustu við börn og unglinga

Velferð Skóli og frístund

""

Hákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, hefur verið ráðinn til að stýra undirbúningi að samþættingu þjónustu við börn og unglinga í samræmi við ný lög um farsæld barna. 

Hákon hefur víðtæka reynslu af störfum með og fyrir börn. Hann er sálfræðingur að mennt en gegndi starfi deildarstjóra skólaþjónustu í Breiðholti áður en hann tók við sem framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur um mitt ár 2018. Skólaþjónustan annast þjónustu við börn og nemendur ásamt því að veita foreldrum, skólastjórnendum og starfsfólki ráðgjöf. Hákon hefur jafnframt starfað sem vinnusálfræðingur, verið meðdómari í forsjármálum, dómskvaddur matsmaður, sinnt úttektum og kennslu.

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, segir mikinn feng að því að fá Hákon í verkefnið, reynslu sinnar vegna, bæði miðlægt og á þjónustumiðstöð, auk þeirrar þekkingar sem hann hefur aflað sér undanfarin þrjú ár hjá Barnavernd Reykjavíkur. Undir það tekur Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs: „Mér finnst alveg ómetanlegt að fá þennan þrautreynda fagmann í leiðtogahlutverk í þessari sameiginlegu vegferð skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs fyrir börnin í borginni,“ segir hann. 

Sjálfur segist Hákon hlakka til að takast á við nýtt og spennandi verkefni. „Farsældarfrumvarpið býður upp stórkostlegt tækifæri þegar kemur að samstarfi stofnana borgarinnar sem þjónusta börn og fjölskyldur. Ég er fullur tilhlökkunar að takast á við þetta verkefni,“ segir hann. 

Hákon fer í leyfi úr starfi sínu sem framkvæmdastjóri Barnaverndar. Katrín Helga Hallgrímsdóttir sem gegnt hefur starfi skrifstofustjóra hjá Barnavernd Reykjavíkur frá ársbyrjun 2019 mun leysa hann af. Katrín Helga er lögfræðingur að mennt og starfaði í 15 ár við lögmennsku hjá BBA//Legal, þar á meðal sem meðeigandi og framkvæmdastjóri. Hún hefur fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu og hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og opinberra stofnana, þar á meðal barnaverndarnefndar Reykjavíkur.